„Bókin er fyrst og fremst um karlmennskuna“

Mynd: RÚV / RÚV

„Bókin er fyrst og fremst um karlmennskuna“

30.10.2019 - 20:10

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála um að Kokkáll, fyrsta skáldsaga Dóra DNA, sé skemmtileg aflestrar og uppfull af hugleiðingum um karlmennskuna og nútímann. Höfundurinn færist hins vegar of mikið í fang og nái ekki alveg að hnýta það saman í síðari hluta bókarinnar.

„Þetta er stór skáldsaga og hann fer um víðan völl í þessari bók,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir gagnrýnandi Kiljunnar. Í bókinni segir af Erni sem vinnur á auglýsingastofu, klassískum íslenskum ungum karlmanni. „Okkur er alveg hent á bólakaf frá byrjun,“ segir Guðrún en bókin hefst á hótelbergi í Chicaco þar sem Ernir er ásamt kærustu sinni og þeldökkum karlmanni sem þau eru nýbúin að kynnast. „Okkur er hent inn í svæsið kynlífsatriði, það er bara eins og maður sé að horfa á klám. Það setur ákveðinn tón fyrir bókina.“ Það sem á sér stað á hótelherberginu verður vendipunktur í lífi Ernis og þar með bókinni. „Bókin er fyrst og fremst um karlmennskuna,“ fullyrðir Guðrún. Örn sé viðkvæmur karlmaður sem vilji ekki líða of vel, bara temmilega illa. Þá fjalli bókin líka um spennu milli kynþátta, þroskahömlun og kynferðisofbeldi. „Ég þurfti alveg að hugsa hvað mér þætti um bókina, hún skilur allavega svo sannarlega eitthvað eftir sig, þetta er mikil nútímasaga.“

Þorgeir Tryggvason segir að þungamiðja Kokkáls sé í lýsingunni á Erni og þar sé tónninn svipaður og í ljóðabókum Dóra DNA. „Það er þessi tilfinningaþrungni léttleiki, örvænting yfir léttleika tilverunnar. Það er mjög flott, hann nær að gera Örn bæði dæmigerðan fyrir sína kynslóð og stétt, en jafnframt sérkennilegan.“ Hins vegar reyni bókin að fjalla um svo margt sem nái ekki alveg að koma saman í lokin, og fyrri hlutinn sé sterkari. „Það er svo ofboðslega margt í þessari bók og það rekst í síðari hluta bókinnar dálítið mikið hvert á annars horn. Maður þarf svolítið að velja hvað maður kýs að taka með sér úr þessari bók.“ Guðrún segir að það sé margt í bókinni sem hægt sé að hafa gaman að, skemmtilegar mannlýsingar og frásagnargleði til að mynda, og þau Þorgeir eru sammála um að hún sé hressandi aflestrar. „Hún er fyndin og skemmtileg,“ segir Guðrún að lokum.

Egill Helgason ræddi við Þorgeir Tryggvason og Guðrúnu Baldvinsdóttir í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Lífið finnur leið til að láta okkur líða illa

Menningarefni

Dóri DNA reynir fyrir sér í LARP-i

Sjónvarp

„Eins og að láta slefa yfir sig í hálftíma“

Tónlist

Dóri DNA á íslensku tónlistarverðlaununum