Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bókelskur köttur rekur menningarsetur á Hvammstanga

Mynd: RÚV / RÚV

Bókelskur köttur rekur menningarsetur á Hvammstanga

29.12.2019 - 12:03

Höfundar

Á Hvammstanga rekur rithöfundurinn og myndlistarkonan Birta Þórhallsdóttir menningarsetur og bókaútgáfu ásamt kettinum sínum henni Skriðu sem er að sögn eiganda hennar mjög menningarlega sinnaður köttur.

Birta Þórhallsdóttir og kötturinn Skriða eru búsettar á bæ sem nefnist Holt og standa þar fyrir ólíkum menningarviðburðum, þó ekki reglulega heldur eingöngu þegar húsfreyjurnar eru í stuði samkvæmt Birtu. Hún ræddi um lífið á Hvammstanga við Morgunútvarpið á Rás 2. „Skriða heldur í raun utan um skipulagningu og stjórnar öllu, ég er útsendari hennar og talsmaður,“ segir Birta sposk um fjölhæfa köttinn sinn sem virðist stjórna ýmsu á Hvammstanga með harðri loppu. Hún segir köttinn meðal annars ákveða hvaða bækur bókaútgáfan Skriða gefur út en útgáfan er skírð í höfuðið á kettinum. „Skriða les bækurnar yfir enda mikill bókaunnandi,“ segir Birta.

Fyrstu bækurnar komu út í mars á þessu ári en það var örsagnasafnið Einsamræður eftir Birtu sjálfa og Vínbláar varir eftir Sigurbjörgu Friðriksdóttur. Sem fyrr segir kom þriðja bókin frá bókaútgáfunni Skriðu út fyrir jólin en það var þýðing Freyju Eilífar á Mannveru Maxíms Gorkí.

Birta hefur búið á Hvammstanga í að vera tvö ár og hún segir að það sé nóg að gerast þar í menningarlífinu. Það sé einnig mikil samheldni á meðal bæjarbúa sem eru duglegir að hjálpast að þegar eitthvað bjátar á enda ríki mikil vinátta þeirra á milli sem sýndi sig meðal annars í óveðrinu mikla sem geysaði á landinu fyrr í mánuðinum og var sérlega harkalegt á Hvammstanga. „Fólk er tilbúið að hjálpa og maður getur alltaf leitað til næsta manns og allir eru tilbúnir að veita hjálparhönd. Svo komu sýrlenskar fjölskyldur hingað í vor og þau hjálpuðu fólki að moka, allir lögðust á eitt og það er frábært að finna þessa samheldni.“

Birta hefur litla þörf fyrir að kíkja til Reykjavíkur síðan hún flutti og eru húsfreyjurnar heimakærari en nokkru sinni fyrr á Hvammstanga. Fyrst um sinn saknaði hún þess þó að geta sótt bókmenntaviðburði, upplestra og aðra listviðburði svo að hún ákvað því sjálf að taka málin í sínar hendur. Þannig varð heimili þeirra að Holti að menningarsetri og bjóða þær reglulega fólki heim til sín á ljóðaupplestra og sagnfræðikvöld með kaffi og kökum.

Það er nóg um að vera hjá bókaútgáfunni Skriðu eftir áramót en meðal annars verður haldið upplestrarkvöld á Holti til heiðurs Maxíms Gorkí í byrjun árs. „Svo er einnig barnabókaútgáfa framundan og ný þýðing í mars,“ segir Birta stolt að lokum.

Rætt var við Birtu Þórhallsdóttur í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Stofnaði bókaútgáfuna Kallíópu 19 ára

Bókmenntir

Ung skáld hylla nýja bókaútgáfu