Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Boeing 737 Max „hönnuð af trúðum“

10.01.2020 - 10:08
Erlent · flug
Mynd með færslu
 Mynd:
„Flugvélin er hönnuð af trúðum og trúðunum er stjórnað af öpum,“ sagði einn starfsmaður flugvélaframleiðandans Boeing um 737 Max flugvélina í skilaboðum til samstarfsmanns fyrir fjórum árum. Boeing hefur birt hundruð skilaboða milli starfsmanna fyrirtækisins þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum vegna Max-vélanna. Þær voru teknar út notkun eftir tvö flugslys sem rekja mátti til galla í vélinni en alls létu 346 lífið í slysunum.

Bandarísk flugmálayfirvöld og bandaríska þingið hafa fengið afrit af skilaboðunum til að rannsaka frekar starfshætti fyrirtækisins og hvernig framleiðslu vélanna var háttað. Til að mynda er þar að finna skilaboð sem benda til þess að fyrirtækið hafi reynt að komast hjá því að eftirlitsstofnanir fengu viðunandi upplýsingar um þjálfun á vélina. Þá spyr starfsmaður Boeing samstarfsmann sinn hvort hann myndi fara með fjölskyldu sína um borð í Boeing 737 Max flugvél. Því var svarað neitandi.

Peter DeFazio, formaður samgöngunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem farið hefur fyrir rannsókn þingsins á flugvélunum, segir skilaboðin sýna bersýnilega að fyrirtækið hafi reynt að halda ákveðnum upplýsingum frá eftirlitsaðilum og almenningi.