Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Boðar jafnréttisþing bara fyrir karla

29.09.2014 - 22:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Ísland og Súrínam halda málþing um jafnréttismál í New York í janúar. Málþingið verður einstakt í sinni röð þar sem eingöngu karlar koma þar saman og ræða jafnrétti kynjanna.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra greindi frá málþinginu í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. Hann segir að málþingið verði haldið í New York, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem karlmenn geti rætt jafnrétti kynjanna við aðra karlmenn. Athyglinni verði þá sérstaklega beint að umræðu um ofbeldi gegn konum.

Gunnar Bragi sagðist vilja fá drengi og karlmenn til að ræða þessi mál og kalla fram þátttöku þeirra með jákvæðum hætti. Málþingið verður einn viðburða sem marka það að á næsta ári eru 20 ár liðin frá kvennaráðstefnunni í Peking.

Fram kemur í frétt Associated Press um málið að Ísland og Súrínam séu hvort á sínum endanum á alþjóðalistanum Global Gender Gap sem gefur til kynna stöðu ríkja í jafnréttismálum. Ísland sé þar efst á blaði en Súrínam í 110. sæti. Bandaríska almannaútvarpið NPR fjallar einnig um málið.