Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Boðar herta löggjöf um jarðakaup auðmanna

17.07.2019 - 18:18
Mynd:  / 
Forsætisráðherra segir alveg skýrt að ekki eigi að líta á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu. Hún segir breiðan pólitískan vilja til að takmarka jarðakaup auðmanna hér á landi.  

Í vikunni hafa borist fregnir af kaupum erlendra auðmanna á jörðum á Íslandi. Félag í eigu Jims Ratcliffes keypti á dögunum Brúarland 2 sem liggur að Hafralónsá í Þistilfirði sem er vinsæl laxveiðiá. Eigendur nærliggjandi jarða eru uggandi yfir kaupunum en Ratcliffe eignast með þessu meirihluta veiðiréttar í Hafralónsá. Fyrir eiga félög í eigu Ratcliffes fjölda jarða á Norðausturlandi, meðal annars í Vopnafirði og Þistilfirði. Í gær var svo greint frá því í Morgunblaðinu að íslenskt dótturfélag bandaríska ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven experience hefði keypt jörðina Atlastaði í Svarfaðardal.   

Jarðakaup auðmanna voru mikið í umræðunni í fyrrasumar og boðaði ríkisstjórnin aðgerðir til að takmarka kaup þeirra á jörðum hér á landi. Starfshópur hefur unnið innan þeirra ráðuneyta sem málið heyrir undir og er von á því að frumvarp verði lagt fyrir Alþingi í vetur. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að grundvallarspurning í málinu sé hvort litið sé á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu. 

„Þar er mitt svar alveg skýrt, það er nei við þeirri spurningu. Við getum ekki litið á land eins og hverja aðra vöru og þjónustu. Ég hef falið sérfræðingi að gera tillögur að lagabreytingum sem koma munu til kasta þingsins næsta vetur. Ég tel að það sé mikill og breiður pólitískur vilji til að setja strangari ramma um þessi mál hér á landi eins og við sjáum svo víða í nágrannalöndum okkar,“ segir Katrín Jakobsdóttir.

Illmögulegt að greina eignarhald jarða hér á landi

Nærri þriðjungur allra jarða á Íslandi er í eigu fyrirtækja. Ekki er hægt að fá upplýsingar um þjóðerni raunverulegra eigenda fyrirtækjanna, og því er ekki vitað hversu margar jarðir á Íslandi eru í eigu útlendinga. Katrín segir slík jarðakaup bundin aðild Íslands að EES-samningnum. Hins vegar séu leiðir til að setja takmarkanir eins og þekkist til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum. 

„Ég tel að við höfum miklu meiri möguleika til að setja skýrari ramma um þessi mál en við höfum gert hingað til. Og við eigum að vera mjög meðvituð um það að land og þau hlunnindi sem því fylgja tengjast fullveldisrétti okkar Íslendinga,“ segir Katrín.