Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Boðar frumvarp í kjölfar dóms Hæstaréttar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Ráðherra sveitarstjórnarmála segir að í haust verði lagt fram frumvarp á Alþingi, þar sem lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði breytt þannig að þau verði ekki lengur andstæð stjórnarskrá líkt og Hæstiréttur úrskurðaði í gær. 

Dómurinn þýðir að ríkissjóður skuldar Grímsnes- og Grafningshreppi, Hvalfjarðarsveit, Fljótsdalshreppi, Ásahreppi og Skorradalshreppi um einn milljarð króna að mati lögmanns þeirra. Hreppirnir voru hlunnfarnir um greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á grundvelli lagagreinar, sem lætur ráðherra ákveða að fella niður greiðslur til tekjuhárra sveitarfélaga. Það má Alþingi aðeins gera.  

„Það eru auðvitað vonbrigði að tapa Hæstarétti þó að hann sé skiptur eftir að hafa unnið bæði í héraðsdómi og Landsrétti,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

„Nú hefur Hæstiréttur talað að útfærslan, sem unnið er eftir, sé ekki nægilega góð og það kallar annars vegar á það að bregðast við dómnum, fara yfir hvað það þýðir gagnvart þeim sveitarfélögum sem þarna eru. Það munum við gera í samráði við ríkislögmann. Og svo hins vegar að fara yfir lögin og við munum setja þá vinnu strax af stað.“

Sveitarfélögin fimm vöruðu Alþingi við þessari lagagrein áður en hún var lögfest en án árangurs. 

„Þau lög, sem þarna komu fram á þessum tíma, eins og þú segir, að eins og mér skilst að þá hafi verið nokkur sátt um þau. En í ljósi dóms Hæstaréttar þá verðum við augljóslega að fara yfir það og leiðrétta þennan veikleika og skoða hvort það séu fleiri á þessum lögum.“ 

Er einhver tímarammi?

„Við munum náttúrulega bara gera þetta eins hratt og mögulegt er og með það fyrir augum að geta þá komið með frumvarp næsta haust.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV