Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Boðar auknar hömlur á jarðakaup

08.02.2020 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Forsætisráðherra ætlar í næstu viku að leggja fram frumvarp sem heimilar stjórnvöldum að setja hömlur á jarðaviðskipti. Samkvæmt frumvarpinu þarf samþykki ráðherra fyrir kaupum á stærri jörðum.

Skýrari skilyrði fyrir aðila utan EES

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, boðaði frumvarpið í ræðu á flokkstjórnarfundi Vinstri grænna í gær. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að sett verða skýrari skilyrði fyrir aðila utan EES svæðisins og skráning í landeignaskrá verður bætt. Skylt verður að fá samþykki ráðherra fyrir kaupum á stærri jörðum og í tilfelli þeirra sem eiga mikið landflæmi fyrir. Þá verða ákvæði um eignarhald tengdra aðila.

Enginn geti eignast stórar sneiðar af landinu

Frumvarpið verður kynnt í næstu viku. „Þetta eru auðvitað risastórir hagsmunir sem þarna eru undir. Bæði hvað varðar auðlindanýtingu, matvælaöryggi og líka fullveldishagsmunir,“ segir Katrín.

Katrín segir kannanir sýna að mikill meirihluti almennings sé fylgjandi því að leggja auknar hömlur á jarðaviðskipti. „Fólki finnst það skipta máli að einhver einn geti eignast stórar sneiðar af landinu okkar.“

Magnús Geir Eyjólfsson