Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Boðað til kosninga í Austurríki

18.05.2019 - 18:51
epa05156019 Austrian Foreign Minister Sebastian Kurz attends a press conference in Skopje, The Former Yugoslav Republic of Macedonia, 12 February 2016. Austrian FM Sebastian Kurz visit Macedonia at the end of his Balkan tour.  EPA/GEORGI LICOVSKI
Sebastian Kurz, utanríkisráðherra Austurríkis. Mynd: EPA
Sebastian Kurz kanslari Austurríkis hefur farið þess á leit við forseta landsins að boðað verði til kosninga sem fyrst eftir hneykslismál leiðtoga annars stjórnarflokks landsins.

Í gær var birt myndbrot þar sem Heinz-Christian Strache varaforsætisráðherra Austurríkis og leiðtogi hins popúlíska Frelsisflokks virðist tjá konu, sem kynnir sig sem frænku rússnesks viðskiptajöfurs að hann geti fjármagnað flokkinn með ólögmætum hætti. Strache sagði af sér embætti í dag.

„Eftir birtingu myndbandsins verð ég að segja að nú er komið nóg,“ sagði kanslarinn. „Hið alvarlega í málinu er viðhorfið gagnvart misbeitingu valds, hvernig farið er með fé skattborgarar, gagnvart fjölmiðlum í landinu.“ Auk þess sagði hann um persónulega móðgun að ræða.

Hneykslismálið virðist hafa verið síðasta hálmstráið í erfiðu stjórnarsamstarfi Þjóðarflokks Kurz og Frelsisflokksins sem staðið hefur frá desember 2017. Forystumenn Frelsisflokksins hafa verið sakaðir um að aðhyllast öfgaskoðanir.

„Þrátt fyrir að ég hafi ekki tjáð mig opinberlega um þetta áður komu upp mörg atvik sem ég átti erfitt með að sætta mig við,“ sagði Kurz og bætti við að Frelsisflokkurinn hafi skaðað orðspor Austurríkis.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV