Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Boða tillögu um þingrof og kosningar

30.03.2016 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þjóðin var leynd upplýsingum fyrir síðustu kosningar og það er eðlilegt að spilin séu stokkuð og gefið upp á nýtt,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og boðar sameiginlega tillögu stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi um þingrof og kosningar.

Árni Páll segir að ríkisstjórnin sé rúin trausti og það sé mjög mikilvægt að fólkið í landinu fái að taka afstöðu til stjórnmálaflokka með allar staðreyndir uppi á borði. „Við viljum gefa þjóðinni færi á því, það er líka mikilvægt að vanda vel til verka. Ef að það verður vantrauststillaga þá þarf að undirbúa hana vel. Það þarf líka að gæta þess að kanna til þrautar allar hliðar þessa máls, þar með talið hvaða svigrúm Umboðsmaður Alþingis telur sig geta haft til þess að rannsaka mál frekar,“ segir Árni Páll. 

Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna vilja að fundað verði sem fyrst með Umboðsmanni í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara yfir málið. 

Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, upplýsti á facebook síðu sinni að hann eigi félag í Lúxemborg. Það gerði hann í samhengi við fréttir af aflandsfélögum sem tengst hafa þremur ráðherrum ríkisstjórnarinnar. „Það samrýmist ekki trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna að eiga fé í skattaskjóli. Hann hefur gert grein fyrir sína eignarhaldi á félagi sem hann segir að sé fullskattað erlendis og þar við situr,“ segir Árni Páll.