Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Bobby Fischer sjötugur

Mynd með færslu
 Mynd:

Bobby Fischer sjötugur

09.03.2013 - 22:30
Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistari í skák, hefði orðið sjötugur í gær. Hann fæddist 9. mars 1943 í Chicago. Fischer varð ungur afburða skákmeistari, hann varð stórmeistari 15 ára. Fischer varð átta sinnum Bandaríkjameistari. Í upphafi áttunda áratugarins var hann langbesti skákmaður heims.

Í aðdraganda heimsmeistareinvígisins hér í Reykjavík 1972 gjörsigraði hann nokkra öfluga keppinauta sína; sovéska skákmeistarann Mark Taimanov 6-0, Íslandsvininn Bent Larsen 6-0 og Tígran Petrosjan, fyrrverandi heimsmeistara, með sex og hálfum vinningi gegn tveimur og hálfum.

Síðan sigraði hann Boris Spasskíj með tólf og hálfum vinningi gegn átta og hálfum.

Eftir einvígi aldarinnar tefldi Fischer ekkert opinberlega í 20 ár, eða þar til hann sigraði Spasskíj að nýju í einvígi í Svartfjallalandi.

Taflmennska hans þar olli því að hann komst upp á kant við yfirvöld í Bandaríkjunum. Þau gáfu út handtökuskipun á hendur honum.

Hann lék þó lausum hala uns hann var tekinn höndum í Japan í júlí 2004.

Hann átti illa ævi í fangelsinu, en varð að dúsa þar í tæpt ár, eða þangað til Alþingi Íslendinga veitti honum íslenskt ríkisfang af mannúðarástæðum 22. mars 2005.

Fischer lést hér í Reykjavík 17. janúar 2008.