Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blúsað og rokkað

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Blúsað og rokkað

13.09.2019 - 13:27

Höfundar

Punch er fyrsta plata blúsrokkaranna í GG Blús en dúettinn skipa þeir Guðmundur Jónsson og Guðmundur Gunnlaugsson. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.

„Black Keys Íslands,“ var hending sem ég og kolleggi minn Ólafur Páll Gunnarsson vorum að gantast með á dögunum. Og ekki fjarri lagi. Eins og sá heimsfrægi dúett byggir GG Blús keyrsluna á gítar og trommum, en söngnum er deilt.  

Guðmundur Jónsson er þekktastur fyrir að hafa verið annar forvígismanna Sálarinnar hans Jóns míns á meðan nafni hans Gunnlaugsson hefur leikið með sveitum eins og Kentár og Sixties. Undanfarin misseri hafa þeir verið að hamra járnið með reglulegu tónleikahaldi og það heyrist á plötunni, í henni kraftur sem hefur auðheyranlega verið knúinn fram með sviðssvita. „Blágrýtt bílskúrsrokk af gamla skólanum,“ segja meðlimir sjálfir og svei mér þá, sú lýsing fangar stemninguna býsna vel.

Platan er tíu laga, þar sem fara sjö frumsamin lög og þrjár ábreiður. Kíkjum á eiginsmíðarnar fyrst. Leikar hefjast á „Broken Dreams“, kröftugum rokkara sem er meira á rokkslóðum en þeim blámalituðu. Blúshendingar hér og hvar kannski, en fyrst og fremst er trukkað áfram í rokkinu og er það vel. Flott upphafslag og meira að segja nettur Black Keys stemmari í gangi! „Touching the Void“ er blúsaðra, í hæfandi, þunglamalegum takti og Guðmundur gítarleikari nýtir „brú“ til að láta hljóðfæri sitt ýlfra eins og enginn væri morgundagurinn. Flottir skalar og riff, nánast þungarokksleg.

Gáski

„Lost and found“ er léttstígt og gáskafullt, stendur ekki fjarri KK. Og eins og sjá má, er GG Blús að kanna ýmsar hliðar blússins og blúsrokksins. „Everything is Wrong with the World today“ er heimsósómakvæði eins og titillinn ber með sér og spilamennskan eftir því. Grimm keyrsla, röddin þrædd í gegnum bergmálsfetil sem gefur laginu firringslega áferð (A Tale of Two Cities Dickens liggur til grundvallar textanum). „Lady Luck (Just give me a chance)“ er með hefðbundnu lagi, ef svo mætti segja, hörð blúsrokkkeyrsla og svipað gildir um „I wanna tell you a story“. Gítarar og trommur eru með knýjandi brag, söngurinn sömuleiðis og í bestu lögunum hér er spenna sem gefur þeim aukið vægi. Plötunni er lokað með titillaginu, brjálaður gítar og svakaleg röddun, ég fæ svona Trúbrotstilfinningu þegar hlustað er. Verkinu slauffað með látum. Einnig renna þeir félagar í lag eftir Rory Gallagher („Cradle Rock“), „Money“ Pink Floyd og svo „Spoonful“ Willie Dixon. Ég er síður áhugasamur um ábreiðurnar, mest hafði ég gaman af „Cradle Rock“, ansi kraftmikil útgáfa þar.  

Eins og sést, Guðmundarnir komast prýðilega frá sínu og vel það á þessari fyrstu plötu. Keyrslan er alla jafna góð og gripurinn rokkar bæði vel og á sannfærandi máta.