Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blöndulína 3 í nýtt umhverfismat í haust

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Landsnet hefur óskað eftir umhverfismati á Blöndulínu 3 frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Framkvæmdastjóri Landsnets segir framkvæmdina mikilvæga fyrir meginflutningskerfi landsins.

Blöndulína 3 er 220 kílóvatta háspennulína sem fyrirhugað er að leggja frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Til­gang­ur  fram­kvæmd­ar­inn­ar er að styrkja meg­in­flutn­ings­kerfi raf­orku á Norður­landi en jafn­framt er hún fyrsti áfang­inn í því að auka flutn­ings­getu byggðalínu­hrings­ins. Fyrirhugaðar framkvæmdir hafa verið í burðarliðnum um árabil. Á þeim tíma mótmæltu landeigendur lagningu línunnar í möstrum og töldu að leggja ætti hana með jarðstreng.

Í mars árið 2017 gaf Landsnet út skýrslu þar sem möguleikar á jarðstreng voru kannaðir. Í niðurstöðum hennar segir að unnt sé að leggja um tíu kílómetra jarðstreng af þeim 100 kílómetrum sem fyrirhugaðir eru.  Lega línunnar er fyrirhuguð um fimm sveitarfélög.  Húna­vatns­hrepp, Sveit­ar­fé­lagið Skaga­fjörð, Akra­hrepp, Hörgár­sveit og Ak­ur­eyr­ar­kaupstað.

„Við erum um það bil að ljúka mati á svokallaðri Hólasandslínu, sem endar í Eyjafirði á Akureyri. Við erum í raun núna að undirbúa framhaldið, línu sem liggur frá Eyjafirði til Blöndu,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.

Tímabært að endurskoða Blöndulínu 3

Landsnet  hyggst byggja upp flutningskerfi á Norðausturlandi með þremur línum. Þær eru Kröflulína 3 frá Kröfluvirkjun í Fljótsdalsstöð.  Framkvæmdir eru hafnar við lagningu hennar. Hólasandslína 3  er fyrirhuguð frá Kröflu til Akureyrar. Sú lína er enn í matsferli.  Þriðja línan er Blöndulína 3 frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Sú lína er rúmlega 100 kílómetrar og fyrirhugað að hún fari í umhverfismat í haust. Sverrir segir að langur tími sé liðinn síðan framkvæmdin var lögð til hliðar og því sé tímabært að endurskoða hana. Ekki liggi fyrir nákvæm útfærsla hennar á þessari stundu.

„Nú hefst þetta undirbúningsferli. Það er þá meðal annars það að eiga samtal við hagsmunaaðila. Það er að segja sveitarfélögin, náttúruverndarsamtök, atvinnuþróunarfélög og fleiri. Svo verður farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og þá fáum við betri mynd á hvert verkefnið í raun og veru er, og hvað er hægt að gera.  Meðal annars hvernig línan ætti að liggja,“ segir Sverrir.

Sveitarfélagið Skagafjörður gerði breytingar á aðalskipulagi sínu í vor þar sem gert er ráð fyrir að Blöndulína 3 verði hluti af aðalskipulagi sveitarfélagsins. Önnur sveitarfélög sem línan nær til hafa ekki gert sambærilegar ályktanir svo vitað sé til.