Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Blómkálið er tískubylgja ársins“

21.08.2019 - 08:15
Mynd: Fréttir / Fréttir
Ketó- og grænkerafæði hefur valdið sprengingu í sölu á íslensku blómkáli. Uppskera ársins lofar góðu en bændur ná vart að anna eftirspurninni. 

Uppskera ársins lofar góðu

Á Flúðum er fjölskyldan hjá Garðyrkjustöð Sigrúnar í óðaönn að taka upp blómkál. Ræktun þess er erfið því algengt er að það myndi örsmá höfuð áður en blöðin eru orðin nógu stór til að hausinn nái fullri stærð. En fyrsta blómkál ársins leit dagsins ljós í júlí og uppskeran lofar góðu.  Sigrún Hrafnhildur Pálsdóttir er blómkálsbóndi. 

„Hún hefur bara verið mjög góð. Við erum ánægð með þetta. Blómkálið fer svo í kæli hjá okkur núna og svo fer þetta bara á markað strax eftir helgi. “

Frá Flúðum fer blómkálið beinustu leið til Reykjavíkur þar sem því er komið til verslana og veitingastaða. Þar er réttast að hafa hraðar hendur - enda hefur annar eins áhugi á blómkáli aldrei sést.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri sölufélags garðyrkjumanna, segir gríðarlega sprengingu hafa orðið í sölu á blómkálinu. „Það vill svo skemmtilega til að í görðunum er líka sprenging. Það er mikið að koma á markaðinn. Við erum að sjá alveg gríðarlega fallegt kál og garðarnir eru flottir. Blómkálið per se er tískubylgjan ársins. Það er kál ársins má segja. 

Ketó- og grænkerafæði líkleg skýring á vinsældum

Ketó- og grænkerafæði hefur fest sig í sessi hér á landi og framboð verslana og veitingastaða er eftir því. Blómkálið virðist þar vinsæll valkostur en það er til að mynda á boðstólum á nánast öllum veitingastöðunum hér á mathöllinni á Hlemmi. 

„Eftirspurnin er alveg gríðarleg og það eru einhverjar skýringar sem við kunnum ekki alveg að skilja en kannski eru þetta matarræði eða breyttar neysluvenjur sem hafa áhrif á þetta en við höfum aldrei séð svona mikinn áhuga á þessu,“ segir Gunnlaugur. 

Sigrún tekur undir þetta og segir breytt matarræði hafa sitt hvað að segja. „Það eru margir komnir í þetta ketó og þar kemur blómkálið sterkt inn en líka bara að fólk vilji bara íslensku vöruna.“

Ná að anna eftirspurn - en ekki lengi

Íslenskir bændur ná í dag að anna eftirspurn. Uppskerutímabil blómkálsins er þó stutt og að því loknu stendur kaupendum einungis það innflutta til boða.

„Íslenska útiræktin er á undanhaldi. Það vantar í rauninni ræktendur inn. Þetta er erfið grein og hún hefur verið á undahaldi síðustu ár,“ segir Sigrún. 

Gunnlaugur segir gat vera á markaðnum. „Að sjálfsögðu, því eftirspurnin er með þeim hætti að við þurfum að auka framleiðsluna.“

En hvað er það við blómkálið sem gerir það sérstakt?
„Eigum við ekki bar að segja að það sé svo fallegt og hollt og gott, ég meina þetta er glæsileg vara,“ segir Gunnlaugur að lokum. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV