Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blekkti barn og komst inn á heimili á Akureyri

13.09.2019 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Óþekktur aðili komst inn í hús á Akureyri í síðustu viku með því að kynna sig sem starfsmann Norðurorku fyrir barni á heimilinu. Lögreglan á Norðurlandi eystra vekur athygli á þessu. 

Í tilkynningu lögreglu segir að maðurinn hafi farið inn á heimilið og síðan út aftur, en hann sagðist vera kominn til þess að lesa af mælum. Ekki var um starfsmann Norðurorku að ræða og tekið fram að þeir séu allir merktir og með sýnilegan starfsmannapassa. Þá er þeim uppálagt að lesa ekki af ef enginn fullorðinn er á heimilinu. 

„Vinsamlegast brýnið það fyrir börnum ykkar að hleypa ekki ókunnugum inn á heimili ykkar. Þá er fólk hvatt til að læsa og tryggja að enginn óviðkomandi komist inn í hús þeirra,“ segir í tilkynningu lögreglu. 

Fyrr í dag varaði lögreglan á Norðurlandi eystra við því að grunsamlegir menn væru á ferð í bænum. Þeir hafi sést taka í hurðarhúna íbúða í umdæminu. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV