Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Blaðamenn leggja niður störf í tólf tíma

22.11.2019 - 07:26
Vefmiðill í síma.
 Mynd: Fréttir
Félagar í Blaðamannafélagi Íslands leggja niður störf klukkan tíu í dag. Verkfallið, sem stendur yfir í tólf tíma, nær til tökumanna, ljósmyndara og blaðamanna á vefmiðlum. Þetta varð ljóst eftir að samninganefndir Samtaka atvinnulífsins og Blaðamannafélagsins luku fundi hjá ríkissáttasemjara laust fyrir klukkan níu í gærkvöld.

Þetta er þriðja verkfall félagsins. Takist ekki að semja verður fjórða verkfallið fimmtudaginn 28. nóvember og nær þá til blaðamanna sem sinna störfum við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, auk ljósmyndara og myndatökumanna.

Nýr kjarafundur hefur ekki verið boðaður og líklega verður ekki fundað að nýju í deilunni fyrr en eftir helgi en boðað hefur verið til félagsfundar í húsakynnum Blaðamannafélagsins í hádeginu. 

Sjá einnig: Óskiljanlegt að ekki hafi náðst saman

Hjálmar Jónsson, sagði í kvöldfréttum sjónvarps í gær að það væru mikil vonbrigði og óskiljanlegt að ekki hafi náðst saman á fundi gærdagsins. Lítið hafi vantað upp á að samningar næðust. Nýjar verkfallsaðgerðir, sem munu bíta meira, verði boðaðar í desember.