Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Blaðamenn Aftenposten við heimili Sigmundar

03.04.2016 - 22:29
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Lögregla hafði afskipti af blaðamanni og ljósmyndara norska dagblaðsins Aftenposten fyrir utan heimili hans í dag. Frá þessu greinir Aftenposten á vefsíðu sinni en blaðamaður reyndi að ná tali af forsætisráðherra þegar hann var að koma heim með konu sinni snemma í dag.

Þar segir að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona forsætisráðherra hafi kurteislega sagt blaðamanni að ekki væri kostur á viðtali. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sat sjálfur inni í bíl þeirra hjóna og virtist vera í símanum að sögn Aftenposten.

Nokkrum mínútum síðar segir Aftenposten að blaðamaður og ljósmyndari blaðsins hafi verið að pakka saman föggum sínum þegar lögreglubíll kom aðvífandi. Tveir lögreglumenn báðu starfsmenn Aftenposten um vegabréf og fréttamannapassa. Eftir stutt samtal fóru þeir til forsætisráðherra sem gekk út úr bíl sínum og inn til síns heima.