Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Björt framtíð slítur stjórnarstarfi

15.09.2017 - 00:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ástæða slitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér rétt eftir miðnætti. Ráðherrar Bjartrar framtíðar greindu forystumönnum samstarfsflokkanna frá þessu seint í kvöld.

Stjórn Bjartrar framtíðar kom saman í kvöld til að ræða stöðuna sem komin er upp eftir að í ljós kom að faðir forsætisráðherra skrifaði undir meðmælabréf með beiðni Hjalta Sigurjóns Haukssonar um að hann fengi uppreist æru. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í kvöld að hún hefði upplýst Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um þetta í júlí. Í byrjun ágúst skrifaði Bjarni á Facebook að hann hefði ekki verið dómsmálaráðherra þegar Robert Downey fékk uppreist æru. Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagði í kvöld að hvorki dómsmálaráðherra né forsætisráðherra hefði greint nefndinni frá þessu. Hann sagði ekkert óeðlilegt við það þar sem nefndin ætti að fjalla um framkvæmd laganna en ekki einstök mál og einstaka menn.

Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, sagði í samtali við fréttastofu að ástæðan fyrir stjórnarslitunum sé trúnaðarbrestur. Eindregin afstaða hafi verið í stjórn Bjartrar framtíðar um að trúnaðarbrestur Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Á. Andersen væri af slíkri stærðargráðu að ekki yrði lengra komist í ríkisstjórnarsamstarfinu.

Sjötíu prósent stjórnarmanna í Bjartri framtíð tóku þátt í atkvæðagreiðslu um tillögu um að slíta stjórnarsamstarfinu. Áttatíu og sjö prósent greiddu atkvæði með tillögunni.

Ekki hefur náðst í forystumenn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.