Björn segist svikinn af miðasölustjóra UEFA

04.07.2016 - 09:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Björn Steinbekk segist ætla að sjá til þess að allir þeir Íslendingar, sem keyptu af honum miða á leik Íslands og Frakklands í gær en fengu hann ekki, fái endurgreitt. Líkt og komið hefur fram komust tugir Íslendinga ekki á leikinn á Stade de France eftir að þeir höfðu keypt miða af Birni. Björn segist hafa verið svikinn af Knattspyrnusambandi Evrópu og íhugar málaferli.

Björn segir að það sé alrangt að miðar hans hafi verið falsaðir eða útvegaðir á óeðlilegan máta. „Eftir leik Íslands og Englands hafði fólkið, sem hafði útvegað mér miða fyrir þann leik, samband við mig. Mér var boðið að selja miða fyrir leik Íslands og Frakklands.

Þetta er maður sem sér um miðasölu fyrir bæði ítalska og portúgalska knattspyrnusambandið. Hans tengiliður og sú sem átti að afhenda mér miðana hér í París er yfirmaður miðasölu hjá Knattspyrnusambandi Evrópu fyrir keppnina í ár. Ég er með gögn frá henni um að mér hafi verið lofaðir miðar,“ segir Björn.

 

Mynd með færslu
 Mynd:
Björn fékk þennan tölvupóst frá Nicole sem er sögð vera framkvæmdastjóri miðasölu UEFA. Í tölvupóstinum er honum boðið að kaupa um 400 miða.

Síðastliðið laugardagskvöld hafði Björn ekki fengið miðana og var orðinn verulega stressaður að eigin sögn. „Þá fer ég í það að útvega mér miða annars staðar. Seinni partinn í gær um tvö, þrjú var ég kominn með um 300 miða af þeim 450 sem ég var búinn að lofa fólki. Ég var vissulega seinn fyrir en kem upp á völl og þá tekur við ástand sem hvorki ég, eiginkona mín né vinir, sem voru að aðstoða mig, réðum við.  

 

Mynd: RUV / RUV

 

Við náðum að afhenda tæplega 300 miða og eftir það kom franska lögreglan og tók mig til hliðar ásamt íslensku lögreglunni og aðstoðaði mig við að koma út þeim miðum sem ég hafði eftir. Það voru kannski 80, 90 miðar. Á sama tíma lentum við í því að bróðir minn var rændur einhverjum 50, 60 miðum sem hann var með í bakpoka af Íslendingum sem voru orðnir verulega órólegir og stressaðir, skiljanlega. Ástandið í gær var í rauninni hræðilegt.“

Björn segist vera að skoða hvað sé hægt að gera til bæta þeim skaðann sem ekki fengu miða. „Við erum að fela okkar lögmanni að vinna að því að hefja endurgreiðsluferli til þeirra sem fengu ekki miða. Við erum að vinna í því að senda Knattspyrnusambandi Íslands greinargerð um þetta mál. Við höfum verið svikinn af miðasölustjóra UEFA og við munum leggja fram tölvupósta um það í dag. Þar liggur þessi hundur grafinn. Þetta er ömurlegt mál og dagurinn í dag fer í að losa um það sem gerðist,“ segir Björn. Tölvupóstinn má sjá hér fyrir neðan.  

 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi