Björk heldur átta stórtónleika í New York

Mynd:  / 

Björk heldur átta stórtónleika í New York

03.05.2019 - 19:43

Höfundar

Björk Guðmundsdóttir heldur átta tónleika í nýju tónleikahúsi í New York á næstu þrjátíu dögum. Tugir íslenskra listamanna koma fram með henni. Íslensk stjórnvöld styrkja Hamrahlíðarkórinn um fimm milljónir króna, svo kórinn geti tekið þátt í verkefninu.

Tónleikarnir verða í nýrri listamiðstöð í New York, sem heitir The Shed, en tónleikar Bjarkar marka opnun hússins. Fyrstu tónleikarnir verða á mánudaginn, og þeir síðustu 1. júní. Uppselt er á alla tónleikana, en 1.200 manns komast á hverja þeirra.

Í yfirlýsingu sem Björk sendi frá sér vegna tónleikanna segir hún að þetta verði hennar vönduðustu og margbrotnustu tónleika frá upphafi, þar sem hið órafmagnaða og stafræna taka höndum saman. Yfirskrift tónleikanna er Cornucopia.

„Mikil landkynning“

Fjöldi listamanna kemur fram með Björk á tónleikunum, margir þeirra íslenskir. Þar á meðal er flautu-septetinn Viibra og Hamrahlíðarkórinn, sem verður skipaður 50 söngvurum. Íslensk stjórnvöld styrkja ferðalag kórsins um fimm milljónir króna.

„Við erum að styrkja Hamrahlíðarkórinn sem er að fara að taka þátt í mjög umfangsmiklu verkefni með Björk Guðmundsdóttur,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. „Þetta verður mikil landkynning og hún er að styðjast við kórinn. Þetta er samstarf sem hefur átt sér stað í talsverðan tíma og ég held að þetta verði alveg stórglæsilegt hjá kórnum.“

En hvers vegna er ríkið að styrkja tónleika hjá henni?

„Vegna þess að ríkið styrkir oft menningartengda viðburði og við höfum verið að gera það í mörg ár. Við teljum að þessi viðburður sé þess eðlis og sé þess virði að styrkja og teljum að þetta muni koma mjög vel út fyrir alla aðila málsins,“ segir Lilja.

Mikil leynd hvílir yfir tónleikunum, og sem dæmi má nefna að fréttastofa fékk ekki leyfi til þess að mynda æfingu hjá Hamrahlíðarkórnum, áður en hann fór til New York, en kórinn hélt utan í dag.

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Hér má sjá ítarlegra viðtal við Lilju Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, um tónleika Bjarkar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Allar plötur Bjarkar á fjöllita spólum

Tónlist

Wu-Tang-rappari segir Björk vanmetna

Menningarefni

George Lucas styrkir útgáfu á kvikmynd Bjarkar