Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Björk ekki liðið eins og stjörnu í áratugi

Mynd með færslu
 Mynd: Warren Du Preez og Nick Thornton

Björk ekki liðið eins og stjörnu í áratugi

09.05.2019 - 14:37

Höfundar

Björk Guðmundsdóttir segir frá metnaðarfullri tónleikaröð sinni í nýju viðtali við New York Times. Þar segist hún hafa hætt hefðbundnum tónleikaferðalögum, meðal annars vegna þess að hún hafi þurft að laga ferilinn að fjölskylduvænni lífsstíl.

Yfirskrift nýrrar tónleikaraðar Bjarkar í nýrri listamiðstöð í New York er Cornucopia. Tónleikarnir eru að sögn Bjarkar hennar vönduðustu og margbrotnustu til þessa.

Fyrstu tónleikarnir voru haldnir í síðustu viku en þeir verða alls átta. Tugir íslenskra listamanna koma þar fram með henni þar á meðal Hamrahlíðarkórinn og sjö kvenna flautukór. Hún lýsir tónleikunum sem stafrænu leikhúsi, eða vísindaskáldsögulegum popptónleikum með femínískum áherslum, í nýju viðtali við New York Times.

Þar segir Björk að hún hafi hætt við hefðbundin tónleikaferðalög, með tilheyrandi álagi, eftir hljómplötuna Biophiliu. „Ég hafði bara ekki trú á því lengur. Ég átti líka fjölskyldu.“ Hún hafi því þurft að laga ferilinn að öðrum áherslum. „Ef ég vil þykjast vera ættmóðir þá ætti ég, þú skilur, að vera samkvæm því,“ segir Björk, sem varð amma á árinu.

Þessar breyttu áherslur hafa hins vegar haft áhrif á fjárhaginn segir Björk í viðtalinu. Hún hafi verið svo heppin að vera af þeirri kynslóð sem gat keypt sér hús, „vegna þess að ég seldi geisladiska á tíunda áratugnum,“ en hún hafi líklega ekki þénað krónu í um 20 ár. „Það fer allt aftur í vinnuna mína – og ég kann vel við það þannig.“

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Chris Delbuck (@chrisdelbuck) on

align="center"

Síðustu tvær plötur Bjarkar, Vulnicura og Utopia, hafa legið nokkuð fyrir utan lendur útvarpsvænnar popptónlistar og blaðamaður New York Times segir að það virðist það ekki trufla hana. Björk segir að sér hafi ekki liðið eins og „A-lista“ stjörnu frá því að hún bjó í London á tíunda áratugnum. „Ég fékk boð í öll helstu partíin,“ segir hún, „og ég bara gerði það, skemmti mér og hugsaði um hvað þetta væri æðislegt. Svo vaknaði ég einn morguninn og hugsaði með mér: Allt í lagi, þetta er nóg fyrir mig – þú veist, tónlistin er hræðileg, samtölin eru agaleg. Ég hef fengið nóg.“

Björk segist hafa uppgötvað það þegar hún fluttist til Spánar og samdi Homogenic, þriðju plötu sína, að hún væri ekki tónlistarmaður sem gæti bæði verið í sviðsljósinu og skapandi í senn. „Ég þarf að hverfa í skuggann, í hornið, þar sem enginn fylgist með mér.“

Þessi innhverfa Bjarkar endurspeglast í tónleikaröðinni Cornucopia. Við hlið sviðsins stendur bergmálsklefi, sem Björk hverfur stöku sinnum inn í. Klefanum er ætlað er að kalla fram áhrif sem líkjast því þegar hún syngur, ein á ferð um sveitir, líkt og hún gerði sem barn.

Mynd með færslu
Kynningarmynd fyrir Cornucopia.

Björk segir að tónleikaröðin Cornucopia snúist að miklu leyti um konur sem styðja hver aðra. Flautukórinn sem kemur fram með henni á tónleikunum heimsótti hana um árabil í sumarbústað þar sem þau héldu „flautuföstudaga“ , með æfingum og borðhaldi.

Greta Thunberg, sænski unglingurinn sem hrinti af stað verkfallsbylgju ungs fólks víða um heim til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda vegna loftslagsbreytinga, flytur upptekið ávarp að tónleikunum loknum. Björk segir í viðtalinu að kynslóð Gretu sé gífurlega meðvituð um áhrifamátt slíkra aðgerða og hún sé mjög stolt af þeim. Á Utopiu segist Björk vilja leggja til leiðir sem geri fólki kleift að eiga í hluttekningarfullu sambandi við náttúruna, frá kvenlægu sjónarhorni.

Viðtal New York Times má lesa á vef blaðsins.

Tengdar fréttir

Hönnun

Svanskjóll Bjarkar til sýnis á Met Gala

Menningarefni

Björk heldur átta stórtónleika í New York

Popptónlist

Varð ástfangin í gegnum textaskilaboð

Tónlist

Finnst áhrif sín á íslenska tónlist vanmetin