Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Björgunarsveitir kemba fjörur í leit að Rimu

26.12.2019 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björgunarsveitin Víkverji í Vík leitar áfram í dag að Rimu Grunskyté Feliksasdóttur sem hefur verið saknað síðan á föstudag. Leitin í dag er þó ekki skipulögð af lögreglu sem ætlar að taka ákvörðun um framhald formlegrar leitar síðdegis í dag.

„Við erum að lenda hérna niðri í Dyrhólafjöru. Og hvar ætlið þið að leita í dag? Þetta er stór leitarsvæði ekki satt? Þetta er stórt leitarsvæði. Við erum búnir að taka heimafjörurnar í kringum Vík. Búnir að taka Reynisfjöru. Nú tökum við Dyrhólafjöru fram að Jökulsá og svo förum við í austuráttina, frá Vík og allavega út að Kúðafljóti.“

Segir Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja. Hann leitaði ásamt átta öðrum að Rimu Feliksasdóttur sem hefur verið saknað síðan klukkan sjö á föstudag. Hún er talin hafa fallið í sjóinn við Dyrhólaey. Rima hefur kennt við Víkurskóla í Vík í Mýrdal.

Leitað þrátt fyrir að lögreglan skipuleggi ekki

Leitarsveitin er á tveimur bílum og á einu fjórhjóli í dag. Leitað var í gær líka, þrátt fyrir að lögregla hafi ekki staðið fyrir skipulagðri leit.

Mynd með færslu
Rima Grunskyté Feliksasdóttir.

„Já, okkur finnst bara alveg sjálfsagt að taka þessi helstu svæði hérna í kringum okkur. Þetta er náttúrlega manneskja sem bjó hérna hjá okkur og bara svona til að létta á öðrum.“

Ástæða þess að lögregla er ekki með skipulagða leit er að leitarskilyrði eru léleg í dag. Orri segir veðrið ekki gott í fjörunum á Suðurlandi.

Rok og rigning í fjörum á Suðurlandi

„Það er rok og rigning bara núna. Bara algjör skítur. En við fengum mjög gott veður í gær. Það hentaði vel til þess að kíkja inn í hella og annað. Svona skúta sem er erfitt að komast í. Þannig að við nýttum það mjög vel.“

Björgunarsveitin á fund með lögreglu síðdegis í dag þar sem ákvörðun verður tekin um framhaldið. Efnt hefur verið til bænastundar í Víkurkirkju í Vík klukkan átta annað kvöld.