Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Björgunarsveitir kallaðar út til að aðstoða ökumenn

27.02.2020 - 20:22
Myndir frá Landsbjörg af björgunaraðgerðum í óveðrinu í desember.
 Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg
Nokkuð hefur verið um útkall til björgunarsveita vegna veðurs, en appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, við Faxaflóa, á Suðausturlandi og Austfjörðum.

Björgunarsveitir ásamt lögreglu þurftu að greiða úr flækju sem myndaðist á Grindavíkurvegi, en þar var nokkur hundruð metra bílaröð. Greiða þurfti úr því svo hægt væri að moka veginn og hefur hann nú verið opnaður á ný.

Svipað er uppi á teningnum við Sólheimasand, en þar eru tugir bíla í vandræðum vegna veðurs og björgunarsveitir eru nú á vettvangi að aðstoða. Búið er að loka veginum milli Markarfljóts og Víkur og vindur hefur náð hátt í 40 metrum á sekúndu í hviðum undir Eyjafjöllum.

Óvissustig er í gildi á Reykjanesbraut, Kjalarnesi, Mosfellsheiði og á Hellisheiði og þar gæti komið til lokana með stuttum fyrirvara.