Björgunarsveitir fá sóttvarnarbúnað vegna COVID-19

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir í bæjarfélögum þar sem líkur eru á að færð geti spillst og langt er í sjúkrabíl hafa fengið sóttvarnarbúnað, meðal annars hanska, sloppa og grímur. Björgunarsveitunum hefur verið skipt upp á milli eininga og þess gætt að ekki sé samgangur á milli. Og menn eru bundnir við ákveðin ökutæki og þess gætt að þau séu sprittuð vel á milli.

Fram kemur í stöðuskýrslu frá því í gær að komið hafi upp tilvik þar sem björgunarsveitir hafa orðið útsettar fyrir fólki með bæði grun um COVID-smit og staðfest smit. 

Guðbrandur Örn Arnarson, björgunarsveitarmaður hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, segir að komið hafi upp tilvik þar sem aðstoða hafi þurft fólk sem var á leið í sóttkví. Í annað skipti hafi björgunarsveitin hýst fólk sem var að koma erlendis frá og átti að fara í sóttkví þar sem það varð innlyksa. 

Þá voru björgunarsveitir kallaðar út til að flytja mann í einangrun á sjúkrahús en að sögn Guðbrands leystist það mál á annan hátt. Þeir björgunarsveitarmenn voru þá ekki komnir með sóttvarnarbúnað.

Guðbrandur bendir á að enn sé hörkuvetur og því sé hægt að búast við að björgunarsveitirnar geti þurft að notast vð sóttvarnarbúnaðinn til að aðstoða fólk sem er í sóttkví eða einangrun eða jafnvel sinna sjúkraflutningum.  Hann segir búið að tryggja samfellu í rekstri björgunarsveitanna, þeim hafi verið skipt upp á milli eininga og tryggt er að sé ekki samgangur á milli til minnka hættuna á smiti.  Þá eru menn bundnir við ákveðin ökutæki.

Engin björgunarsveit hefur þurft að fara í sóttkví eftir útkall en heil sveit á Norðurlandi vestra er í úrvinnslusóttkví vegna gruns um víðtækt smit í landshlutanum. Sú sveit muni þó sinna útköllum ef brýna nauðsyn ber til.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV