Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bjóða flóttamenn velkomna

13.09.2015 - 08:57
samstöðufundur með flóttamönnum 13. september 2015
 Mynd: ruv
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fólkið sem var á samstöðufundi með flóttamönnum á Austurvelli í gær vill bjóða flóttamenn velkomna til Íslands.

Fundurinn hér var einn af fjölmörgum sem haldnir voru í Evrópu í gær undir kjörorðinu Evrópa býður flóttamenn velkomna. Dagskráin hófst klukkan eitt á Austurvelli. Fjöldi fólks hrópaði á ensku. 

„Say it loud, say it clear refugees are welcome here, say it loud say it clear, refugees are welcome here.“

Hilmir Jensson:  „Ég er bara hérna til að sýna samstöðu og lýsa yfir vilja til að gera eitthvað í málinu. Hér er nógur peningur, þó að við köllum þetta stundum kreppu eða slæmt ástand, við getum mikið gert til að hjálpa.“

Björn Reynir Halldórsson, einn af skipuleggjendum samstöðufundarins: „Það er margt í gangi hérna sem einstaklingar eru gera en boltinn er hjá stjórnvöldum, stjórnvöld geta gert svo miklu meira.“

Abdelaziz Hamou, kom frá Sýrlandi fyrir 10 árum:  „Þau þurfa allt, föt.....   Sástu ekki fréttina í gær? Þau eru í rigningunni og allt er út um allt. Börnin gráta. Það er bara hræðilegt. Þetta eru mjög erfiðar aðstæður. Við verðum að hjálpa, fólkið verður að hjálpa.“

Védís Guðjónsdóttir:  „Við náttúrulega getum sent peninga út til að styðja í fljóttamannabúðir í löndunum í kringum Sýrland til dæmis en fyrir hvern og einn sem við björgum að þá er það björgun fyrir þann.“

Þuríður Pétursdóttir: „Við getum tekið við miklu fleira fólki við erum svo sára sára fá að við getum alveg tekið við fólki þar til við erum svona upp undir milljón, þá fer þetta þjóðfélag kannski að funkera almennilega“

Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir:  „Ég veit alveg að það er réttmæt umræða að við þurfum að geta hjálpað fólki og sinnt því til langs tíma en núna þurfum við eiginlega bara að bjarga mannslífum.“

Jovana Pavlovic, kom með foreldrum sínum frá Serbíu fyrir 16 árum: „Þegar þú ert að berjast fyrir lífi þínu og óttinn við að lifa af er náttúrlega ólýsanlegur, þú gleymir honum aldrei. Það er náttúrlega það sem þetta fólk er að gera, það er að berjast fyrir lífinu sínu, flýja stríðsátök og  sprengjur. Þau eru náttúrlega þau einu sem skilja það í rauninni, það skilur það enginn annar.“  Hvað varstu gömul þegar þú upplifðir svona? „Ég var sex ára.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV