Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjóða einstæðingum í jólaveislu á Ólafsfirði

24.12.2019 - 11:43
Mynd með færslu
 Mynd: Kaffi Klara - RÚV
Fjölskylda á Ólafsfirði hefur boðið til veislu á veitingastaðnum Kaffi Klöru í kvöld. Þar verður einstæðingum af svæðinu boðið að koma og njóta jólanna.

Opið hús í allt kvöld

Fjölskyldan sem á og rekur veitingastaðinn hefur með hjálp velunnara ákveðið að bjóða til veislunnar, gestum að kostnaðarlausu. Ida Semey, eigandi Kaffi Klöru segir nokkra einstaklinga hafa boðað komu sína en húsið stendur opið í allt kvöld.

„Það eru alltaf einhverjir sem eru einir um jólin og hví ekki að bjóða þessu fólki að vera með okkur,“ segir Ida. 

Kvöldið hefst á jólaguðþjónustu í Ólafsfjarðarkirkju og eru gestirnir velkomnir með. Húsið verður svo opið fram eftir kvöldi.

„Já já hér er nóg til af mat ef fólk vill koma og við munum hafa hurðina opna fram á kvöld. Það er alltaf hægt að bæta við borðum ef fleiri vilja koma og njóta jólanna með okkur.“ 

Nóg til af mat

„Við verðum með purusteik, hangikjöt og nóg af eftirréttum svo það ætti enginn að fara svangur heim.“