Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjartmar semur þjóðhátíðarlagið í ár

Mynd: Guðmundur Pálsson / RÚV

Bjartmar semur þjóðhátíðarlagið í ár

12.06.2019 - 15:50

Höfundar

Bjartmar Guðlaugsson hefur verið iðinn við tónlistina og húmorinn síðan snemma á áttunda áratugnum við miklar vinsældir þjóðarinnar. Nú hefur Bjartmar verið fenginn til að koma fram á Þóðhátíð í ár og semja nýtt þjóðhátíðarlag, en það gerði hann síðast fyrir 30 árum eða árið 1989.

Fyrstu helgina í ágúst á hverju ári eru Eyjar á hvers manns vörum því þá er haldin Þjóðhátíð allt frá árinu 1874. Hefðin að gera sérstök þjóðhátíðarlög er aðeins yngri. Fyrsta lagið er frá árinu 1933 og hefur það verið árvisst nánast óslitið síðan. Lögin eru að sjálfsögðu ekki öll jafn minnistæð en stundum hefur tekist mjög vel til og lögin hafa lifað með þjóðinni.

Í ár var leitað til Bjartmars, en hann samdi síðast þjóðhátíðarlag fyrir þremur áratugum. Lagið er að hans sögn ekta þjóðhátíðarlag með auðlærðum texta um Eyjar og léttum reggí-takti, en Bjartmar hefur verið heillaður af tónlist frá Jamaíku í áratugi. „Ég er bara soldið mikið í Eyjum og áhrifin eru þess vegna reggí. Þetta er bara svona lag sem er auðvelt að læra og textinn ekkert of flókin,“ sagði Bjartmar og bætti við að þetta yrði að vera fljótlært og grípandi, „Þessi lög eru gjarnan notuð svona mest í kringum Þjóðhátíð og verslunarmannahelgi þannig að þetta verður að fara fljótt yfir.“

Bjartmar gerði síðast þjóðhátíðarlag árið 1989, þá úr texta sem hann átti í smiðju sinni. Hann var ekki mikið í því að semja lög á þeim tíma þannig að hann hóaði í vin sinn píanóleikarann Jón Ólafsson til þess að snara fram lagi. „Hann gerði þetta bara á núll einni og það er bara Í brekkunni og er svona smá minningarljóð um alla kallana og kellingarnar sem voru þarna í æsku minni,“ sagði Bjartmar en hann bjó ungur í Eyjum. „Ég var sjö ára gamall þegar ég kom frá Fáskrúðsfirði til Eyja og hef síðan líka verið í Eyjum margar margar vertíðir og haldið tengslum þó ég flytti í bæinn um tvítugsaldurinn.“

Bjartmar Guðlaugsson hitti Guðmund Pálsson í sólinni, þú getur hlustað á allt spjallið við hann um nýja og gamla þjóðhátíðarlagið, Vestmannaeyjar, reggí-áhugan, lífið og tilveruna í spilara hér að ofan - auk þess að heyra lagið sjálft.