Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bjarni vissi ekki af kröfum Wintris Inc.

17.03.2016 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist ekki hafa vitað af því að Wintris Inc., félag í eigu eiginkonu forsætisráðherra, hefði lýst kröfum í þrotabú föllnu bankanna þriggja. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag.

Óttarr vísaði í fyrirspurn sinni til siðareglna þingmanna sem samþykktar voru á Alþingi í gær. Þar kemur meðal annars fram að þingmenn skuli „ við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna og fjárhagslegra hagsmuna þeirra eða annarra hagsmuna sem eru faglegir, persónulegir eða tengdir fjölskyldu þeirra, hvort sem þeir eru raunverulegir eða hugsanlegir.“

Bjarni sagði það ekki sitt að segja til um hvað væri eðlilegt og hvað væri rétt í þessu samhengi - það væri Sigmundar Davíðs að gera grein fyrir því sjálfur hvernig þessu máli væri fyrirkomið. „Ég veit að forsætisráðherra mun gera það ef eftir því verður óskað.“  

Óttarr spurði jafn framt hvort Bjarni teldi að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað í málefnum forsætisráðherra og eiginkonu hans. Bjarni sagði að þetta hlyti að vera vegið og metið eftir þeim lögum og reglum sem um þetta mál gilti - hann gæti ekki betur séð en að farið hefði verið eftir þeim og því væri hann ekki í neinni stöðu til að segja að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað. Hann ítrekaði engu að síður að þetta væri mál forsætisráðherra og því væri það hans að svara um þetta mál.