Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjarni vill veita skattaafslátt vegna reiðhjóla

26.11.2019 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: cc
Felldur verður brott virðisaukaskattur af rafmagnsreiðhjólum og öðrum reiðhjólum, upp að ákveðnu marki, ef frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja verður að lögum. Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn í dag.

Gert er ráð fyrir að hámark niðurfellingar virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum verði 96 þúsund krónur en 48 þúsund fyrir reiðhjól og var sú upphæð tvöfölduð eftir umsagnir sem bárust um málið í samráðsgátt stjórnvalda. Frá árinu 2012 hefur verið í gildi ívilnun sem lækkað hefur útsöluverð vistvænna ökutækja og gildir hún til ársloka 2020. Í frumvarpinu er lagt til að hún verði framlengd fyrir hreinorkubifreiðar til ársloka 2023.

Samkvæmt frumvarpinu er líka lagt til að kostnaður heimila vegna heimahleðslustöðva lækki með fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts af efni og vinnu. Þá lækkar verð hópbifreiða sem notaðar eru í almenningsakstri á vegum opinberra aðila, þar með talinni akstursþjónustu fyrir skólabörn, aldraða og fatlað fólk.

Einnig er miðað að því að tillögurnar komi til með að hafa áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja. Meðal annars með undanþágu frá virðisaukaskatti vegna útleigu vistvænna bíla hjá eigna- eða fjármögnunarleigufyrirtækjum og bílaleigum.

Fréttin hefur verið uppfærð með þeim upplýsingum að frumvarpið hafi verið samþykkt í ríkisstjórn. Þá benti fyrirsögn til þess að skattaafsláttur af reiðhjólum hafi áður verið í gildi, en það er nýr afsláttur ef frumvarpið verður samþykkt á Alþingi.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV