Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bjarni víkur sæti vegna tengsla við Arctic Hydro

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Forsætisráðherra kynnti í morgun tillögu um að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, verði sett til að fara með og taka ákvörðun um samningsgerð um afnot af vatnsréttindum og landi innan ríkisjarðarinnar Þingmúla í Fljótsdalshéraði.

Fjármála- og efnahagsráðherra vék sæti í málinu vegna fjölskyldutengsla hans við fyrirsvarsmann Arctic Hydro ehf. sem hefur óskað eftir afnotum af framangreindum réttindum.

Benedikt Einarsson er stjórnarformaður Arctic Hydro en hann er frændi Bjarna.

Arctic Hyrdo undirbýr allt að 9,9 MW Geitdalsárvirkjun, með þriggja ferkílómetra miðlunarlóni í Leirudal austan Hornbrynju.

Það eru Fljótsdalshérað og ríkið sem eiga vatnsréttindin til helminga og leigja til Arctic Hydro. Sveitarfélagið og ríkið hafa átt í viðræðum um hvernig þau skipta leigutekjum af vatnsréttindum og landnotum. Miðlunarlónið yrði í landi ríkisins en þrýstipípa og stöðvarhús í landi sveitarfélagsins.

Samkvæmt upplýsingum sem Arctic Hydro veitti fréttastofu í janúar liggur fyrir hve mikið greitt er fyrir fallréttindi og landnot.

Þau verða leigð til langs tíma og greiðir fyrirtækið 3 prósent af öllum tekjum virkjunarinnar, fyrstu fimm árin. Eftir það hækkar leigugjaldið í 5 prósent af tekjum og hækkar svo um eitt prósentustig á fimm ára fresti þar til gjaldið nær 10 prósent af tekjum eftir 30 ár frá gangsetningu virkjunar.