Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bjarni tjáir sig ekki að svo stöddu

30.07.2014 - 14:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að tjá sig að svo stöddu um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og varaformanns flokksins, í ljósi nýjustu framvindunnar í lekamálinu svokallaða.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sendi innanríkisráðherra bréf í dag og óskaði eftir öllum tiltækum upplýsingum um samskipti Hönnu Birnu við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu um lögreglurannsókn sem embætti hans vann að er beindist að meðferð trúnaðarupplýsinga í innanríkisráðuneytinu.

Í bréfi umboðsmanns til Hönnu Birnu segir að hann hafi ákveðið að óska eftir upplýsingunum eftir að hafa rætt við Stefán Eiríksson, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, og Sigríði Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara eftir umfjöllun DV í gær. Hanna Birna hefur til 15. ágúst að svara umboðsmanni. 

Bjarni sagðist í samtali við fréttastofu ekki ætla að veita viðtal vegna málsins að svo stöddu. 

Fullyrt var í DV að  Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefði reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu á lekamálinu svokallaða.

Þar sagði enn fremur að Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu væri að hætta störfum vegna ítrekaðra afskipta Hönnu Birnu af störfum lögreglunnar í tengslum við málið. DV segir að Hanna Birna hafi kallað Stefán á fund í ráðuneytinu og beitt hann þrýstingi til að hafa áhrif á rannsókn málsins.  Því hafnar ráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu, sem var svona: 

Ég hafna með öllu stóryrtum og ósönnum fullyrðingum DV vegna þessa máls.  Likt og komið hefur fram í dag bæði hjá mér og lögreglustjóra á ég enga aðkomu að ákvörðun hans um að skipta um starfsvettvang og hef hvorki beitt hann þrýstingi eða haft óeðlileg afskipti af einstökum málum sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá lögreglu. I því máli sem hér er til umræður hef ég og allir starfsmenn ráðuneytisins sýnt fullan samstarfsvilja við rannsókn málsins á öllum stigum enda hefur málið verið rannsakað ítarlega.  Líkt og komið hefur fram liggur niðurstaða ekki enn fyrir og mun ég þangað til ekki tjá mig frekar um málið.