Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bjarni og Katrín ætla að hittast í dag

29.11.2016 - 11:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, ætla að hittast á fundi í dag og ræða hvort mögulegt sé fyrir flokkanna tvo að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Ekkert er gefið upp til hvaða flokks verður leitað til að tryggja meirihluta. Þetta upplýsti Bjarni að loknum þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks í morgun. Þingflokkur VG kom einnig saman til fundar í morgun.

Bjarni sagði eftir þingflokksfundinn að honum hugnaðist ekki minnihlutastjórn en sá möguleiki hefur verið nefndur eftir að slitnaði upp úr tveimur stjórnarmyndunarviðræðum. Fyrst milli Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar og svo fimm flokka - VG, Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Bjarni og Katrín hafa rætt saman undanfarna daga. Fram kom í fréttum RÚV í gær að Bjarni hefði hringt í Katrínu um helgina en þá höfðu einnig farið fram óformlegar viðræður um að endurnýja stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir hafa 31 þingmann - Sjálfstæðisflokkur 21 og VG 10.  Fram kom í fréttum RÚV að VG vildi helst fá Samfylkinguna inn í samstarf þessara tveggja flokka og að Sjálfstæðismenn væru að gefast upp á því að reyna að sannfæra aðra flokka um að starfa með þeim og Framsóknarmönnum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV