Bjarni hættir með ÍR eftir tímabilið

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Bjarni hættir með ÍR eftir tímabilið

25.03.2020 - 17:00
Bjarni Fritzson mun hætta sem þjálfari karlaliðs ÍR í handbolta að yfirstandandi tímabili loknu. Kristinn Björgúlfsson mun taka við stjórnartaumunum.

Sigurður Rúnarsson, yfirmaður handknattleiksdeildar ÍR, staðfesti þetta í þættinum Sportið í dag á Stöð 2. Bjarni skrifaði undir tveggja ára samning í janúar en ljóst að hann mun ekki klára þann samning. Hann mun þó koma að uppbyggingarstarfi og þjálfun yngri flokka hjá félaginu.

Bjarni hefur þjálfað ÍR frá 2014 en var áður spilandi þjálfari á Akureyri. Hann vann bikartitil sem leikmaður liðsins árið 2005.

Kristinn Björgúlfsson, aðstoðarþjálfari Bjarna og þjálfari kvennaliðs ÍR, mun taka við karlaliðinu fyrir næstu leiktíð.

ÍR á öruggt sæti í úrslitakeppnina á þessari leiktíð en situr í sjötta sæti Olís-deildarinnar með 24 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Ekki er ljóst hvort eða hvenær næstu leikir í deildinni fara fram.