Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bjarni ætlar að ræða við Sigurð Inga

05.04.2016 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, þakkaði forsetanum fyrir að bregðast við með þeim hætti sem hann gerði í morgun við þingrofstillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra. Hann kveðst ætla að ræða við Sigurð Inga Jóhannsson um þá stöðu sem upp er komin en gerir enga kröfu um að setjast sjálfur í forsætisráðherrastólinn. Málið skýrist ekki í dag en á næstu dögum.

Bjarni upplýsti jafnframt að hann hefði greint forsætisráðherra frá því að Sjálfstæðismenn væru ekki hræddir við kosningar.  „Ég var búinn að segja forsætisráðherra að ef þingrof væri útspil hans þá óttuðumst við það ekki.“

Bjarni upplýsti jafnframt að Sigmundur hefði einungis séð tvo valmöguleika í stöðunni - annað hvort væri hann forsætisráðherra eða boðað yrði til kosninga. „Ég greindi honum frá því að ég sæi aðra möguleika í stöðunni.“

Bjarni segist hafa fulltr traust frá sínum flokksmönnum og sitt mál, sem fjallað var um Kastljósi, sé nokkuð klippt og skorið.  Stóru tíðindin séu þau að forsætisráðherra hafi ákveðið að stíga til hliðar. „Það er ekki svo að verk ríkisstjórnarinnar hafi sótt mikilli gagnrýni heldur atburðir síðustu daga.“

Bjarni segir að ef hann og Sigurður Ingi nái saman eigi hann ekki von á öðru en að vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar falli um sjálft sig inni á þinginu. Hann kveðst ekki gera neina kröfu um að verða forsætisráðherra.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV