Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bjarna finnst bjórinn á barnum dýr

17.09.2019 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fjármálaráðherra furðar sig á háu verði á bjór á börum borgarinnar. Í færslu á Facebook gerir hann það að umtalsefni þegar hann keypti sér stóran bjór á hótelbar, sem er nokkru hundruð prósentum dýrari en í smásölu í ÁTVR. Þetta gerir hann í tengslum við ummæli framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda um skattlagningu á áfengi hér og telur fleira en áfengisgjald skýra hátt verðlag á veitingastöðum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra birti í morgun færslu á Facebook síðu sinni þar sem hann segir að há áfengisgjöld á Íslandi séu ekki það eina sem skýri hátt verðlag á áfengi. 

Dýr á Nordica, en ekki sá dýrasti

Sjálfstæðisflokkurinn hélt gleðskap á Hilton Reykjavik Nordica hótelinu um helgina, svokallað Sjallaball, og þar fékk Bjarni sér stóran Tuborg Classic á dælu á barnum. Hann skrifar: 

„Hann kostar í ÁTVR, með smásöluálagningunni, 379 kr. samkvæmt vefsíðunni. Sami bjór af krana kostaði 1.400 kr. á hótelinu. Það er 370% yfir smásöluverði ÁTVR. Konan sem afgreiddi mig samsinnti um að þetta væri hátt verð, en taldi það þó ekki það hæsta í borginni.”

Ferðaþjónustan verður að vera samkeppnishæf

Bjarni segir að mikilvægt sé að fylgjast með verðþróun í landinu og nefnir þar ferðaþjónustuna sem dæmi og að hún verði að geta boðið samkeppnishæft verð. Ekki sé nóg að ræða eingöngu um opinber gjöld, sem séu nú að rýrna og að áfengisgjald fylgi ekki verðlagi. 

„Menn segja skatta skýra hátt áfengisverð. Því verður ekki mótmælt að áfengisgjöld eru há á Íslandi. Maður spyr sig samt sem áður hvort hér komi ekki fleira til.”

Nokkrir kollegar Bjarna úr ríkisstjórninni smella á „Like” við færsluna, þar á meðal samflokksfólk hans Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

FA mótmælir hækkun áfengisgjalds harðlega

Með færslunni deilir fjármálaráðherra grein úr Viðskiptablaðinu þar sem vísað er í grein Félags atvinnurekenda (FA) undir fyrirsögninni: „Skattar skýra hátt áfengisverð”. Þar mótmælir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, áætlunum rískisstjórnarinnar um 2,5 prósenta hækkun áfengisgjalds, eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Vísað er í færslu á vef FA þar sem segir að áfengisverð á Íslandi sé 168 prósentum hærra en alla jafna innan ESB ríkjanna, en til samanburðar séu óáfengir drykkir 34 prósetnum dýrari á hér.

„Skattlagning á áfengum drykkjum á Íslandi er komin út fyrir öll velsæmismörk,“ segir Ólafur í grein sinni. „Við erum komin langt fram úr þeim ríkjum sem leggja hæsta skatta á áfenga drykki undir yfirskini lýðheilsusjónarmiða.”