Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bjarna Benediktsson langar til að halda áfram

23.02.2020 - 12:16
Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að sig langi til að halda áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Silfrinu á RÚV. 

Horfir til framtíðar og telur sig hafa stuðning

„Mér líður þannig að ég sé ekki búinn. Að ég hafi stuðning. Að það sé verk að vinna. Að okkur hafi tekist vel við að fást við afleiðingar fjármálahruns. Að við séum komin á góðan stað og séum farin að horfa til framtíðar. Mér líður vel með það að við séum ekki að tala um höft, skuldastöðu heimilanna, skuldauppgjör fyrirtækja, hallarekstur ríkissjóðs og skuldavanda hans. Heldur að við stöndum á ákveðnum kletti og séum að horfa til framtíðar,“ sagði Bjarni.

Þetta sé meira spennandi vinna heldur en hitt og hann hafi fengið ákveðna endurnýjun eftir að hafa tekið þátt í endurreisnarstarfi í áratug. „Ég er mjög spenntur fyrir því sem bíður manns og hvort ég hef stuðning til þess á eftir að koma i ljós,“ sagði Bjarni. 

Vill að kosið verði haustið 2021

Bjarni sagði jafnframt að hann vildi að gengið yrði til kosninga að hausti 2021, þegar full fjögur ár verði liðin frá síðustu kosningum. „Ef ég á að segja hug minn allan þá kostaði það blóð svita og tár að komast til valda. Afhverju í ósköpunum ætti maður að gefa það frá sér hálfu ári áður en lög segja til um. Mér finnst ekkert vandamál að kjósa að hausti til. Það hefur bara gengið ágætlega. En ef það verður niðurstaðan að það sé betra út af taktinum gagnvart fjárlögum eða öðru að kjósa að vori þá getur vel verið að það verði niðurstaðan. Eða að menn hafa ekki úthald til að ljúka stjórnarsamstarfinu. Það finnst mér ólíklegt. Í stuttu máli þá vildi ég kjósa að hausti 2021,“ sagði Bjarni.

Tillögur vegna óveðurs kynntar í vikunni

Í samtali við Egil Helgason sagði Bjarni líka að nú i vikunni mætti búast við tillögum hóps sem fjallaði um ráðstafanir sem þarf að gera eftir að óveðrið kom upp í desember. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV