Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bitcoin tvöfalt stærri en krónan

21.07.2019 - 15:24
Cover myndir fyrir umfjallanir Kveiks um bitcoin og Raufarhöfn.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Notendahagkerfi rafmyntarinnar bitcoin er tvöfalt stærri en íslensku krónunnar. Raunvelta á mörkuðum með bitcoin eru þrír milljarðar dollara, um 375 milljarðar króna. Rafmynt er stærsti óháði gjaldmiðillinn sem ekki er gefinn út af seðlabanka.

Þetta segir Kristján Ingi Mikaelsson, framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands, í samtali við fréttastofu RÚV. Stærstu hópar notenda rafmynta sé fólk sem er tæknilega þenkjandi eða hafi ekki trú á núverandi kerfi þar sem seðlabankar gefa út gjaldmiðla.  

Kristján segir hugtakið námagröft ekki mjög lýsandi fyrir framleiðslu bitcoin í gagnaverum, heldur frekar færslustaðfestingu. Til þess þurfi tölvur sem reikna út og sannreyna að færslur séu réttar. Þær tölvur sem tekst að staðfesta færslu fá sem umbun útgefna rafmynt.     

Virði rafmyntar sé ákvörðuð líkt og margt annað á tvíhliða markaði, þar komi til bæði tiltrú einstaklinga og hvað aðrir séu tilbúnir að greiða fyrir gjaldmiðilinn. Virði einnar bitcoin-myntar sé í dag um 1,5 milljónir króna, sem er mjög mikið í ljósi þess að aðeins geti 21 milljón bitcoin orðið til. Gífurlega mikið rafmagn þurfi í framleiðsluna og botnvirði ákvarðast af framleiðslukostnaði. Allt fyrir ofan það ráðist af getgátum og hreyfingu á markaðnum. 

Hefur ekki trú á bitcoin

Gylfi Magnússon, fyrrum viðskiptaráðherra og dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, ræddi um rafmynt í Morgunútvarpinu á Rás 2 í síðustu viku. Hann segir að framleiðsla bitcoin sé sóun á orku og slá megi verulegan varnagla við umhverfisáhrifunum sem henni fylgja því að sóun orku sé eitt stærsta vandamálið sem jarðarbúar standa frammi fyrir í dag. 

Gylfi hefur ekki mikla trú á bitcoin og segir að það komi að því að bólan springi. Hins vegar sé ómögulegt að segja til um hvenær það gerist og þangað til gæti bitcoin hækkað verulega í verði. Einhverjir gætu haft tekjur af rafmyntinni og framleiðslu hennar en það ætti ekki að gera langtímaáætlanir tengdar bitcoin.