Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Biskup segir sorglegt að þörf sé á byssum

25.10.2014 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Agnes M. Sigurðardóttir biskup segir það sorglegt að þjóðfélagið sé þannig að lögreglan þurfi á hríðskotabyssum að halda. Hún treysti því að þeim verði ekki beitt nema í neyð.

Fimmtugasta og fyrsta kirkjuþing var sett í morgun með tónlist og helgistund þar sem biskup talaði um mikilvægi þess að kirkjan væri boðberi friðar. Fréttastofa innti Agnesi Sigurðardóttur biskup eftir skoðun hennar á því að lögreglan hefði nýlega eignast hundruð hríðskotabyssa.

„Auðvitað er það sorglegt í raun og veru að þjóðfélagið skuli vera þannig að lögreglan þurfi að hafa aðgang að byssum, manni finnst það ekki góð þróun. En þetta er náttúrulega í öðrum löndum og allt sem er í öðrum löndum hefur tilhneigingu til að berast hingað norður til þessarar eyjar.“

Verðum að treysta því að byssum verði aðeins beitt í neyð
En telur Agnes að staðan sé þannig að þetta sé bara eitthvað sem Ísland þurfi að hafa? „Já, auðvitað vildi ég að svo væri ekki, að við þyrftum ekkert á þessu að halda en ef lögreglan telur svo þá verð ég að treysta því að hún hafi dómgreind til að meta það á þann veg. Og það er eitt sem er að við verðum líka að treysta því að þessum vopnum verði ekki beitt nema í ítrustu neyð. Þetta er hluti af því sem er í þessu samfélagi, við erum svo mikið að glíma við traustið í samfélaginu alveg frá hruni. Það er eins og allt hafi hrunið og ekki síst traustið. Og þegar við fáum vitneskju um eitthvað eins og byssurnar eða skotvopnin, þá held ég að við séum kannski fyrst og fremst að tala um traustið. Treystum við því að þessum vopnum sé ekki misbeitt, treystum við því að þau séu bara notuð í vörn eða neyð? Og helst náttúrulega aldrei, treystum við því? Það er spurningin sem mér finnst vera á bak við þetta allt,“ segir Agnes. En treystir hún því? „Já ég treysti því. Ég hef tilhneigingu til að treysta öllu og öllum þar til ég reyni annað,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup.

[email protected]