Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bíóást: Bill Murray stelur senunni

Mynd: RÚV / RÚV

Bíóást: Bill Murray stelur senunni

31.05.2019 - 15:21

Höfundar

Kvikmyndin Tootsie hefur lengi verið í uppáhaldi hjá Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur leikkonu. „Ég held að þetta sé mynd sem allir leikarar geti tengt við. „Eins og þegar Dustin Hoffman er að tala við umboðsmanninn sinn og hann sendir hann í Tomma tómat.“

Tootsie er sígild gamanmynd frá 1982 með Dustin Hoffman í aðalhlutverki. Myndin segir frá atvinnulausum leikara sem dulbýr sig sem konu og fær hlutverk í sápuóperu. Með tímanum dregst hann sífellt lengra inn í hlutverkið sem gerir honum erfitt fyrir þegar hann verður ástfanginn af mótleikkonu sinni.

Myndin hefur lengi verið í uppáhaldi hjá Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur leikkonu. Hún segir Tootsie vera mynd sem allir leikarar geti tengt við og nefnir sem dæmi samskipti persónunnar sem Hoffman leikur við umboðsmann sinn.

„Hoffman er mjög skemmtilegur í þessu hlutverki, að leika konu. Hann sagði nú að eftir að hafa gengið í gegnum þessa reynslu – að þurfa að standa í öllu því sem konur standa í bara fyrir það eitt að vera konur – gerði það að verkum að hann ber miklu meiri virðingu fyrir þeim en hann gerði áður.“

Mynd með færslu
 Mynd: Columbia Pictures
Dustin Hoffman í hlutverki sínu í Tootsie.

Með önnur hlutverk fara leikararnir Jessica Lange, Sydney Pollack, Geena Davis og Charles Durning. Einn leikari stelur þó senunni segir Jóhanna Vigdís, og það er Bill Murray. „Ég hef séð allt með Bill Murray síðan. Hann stelur senunni hvað eftir annað í þessari mynd. Ég vil meina að þetta sé svolítið eins og í Tvíhöfða. Bill Murray er svona Sigurjón Kjartansson sem að stelur senunni hvað eftir annað, með frábærum kommentum og „less is more“ dæmi.“

Kvikmyndin Tootsie verður sýnd á RÚV á laugardagskvöld. Hún er hluti af sýningaröð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru sýndar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bíóást: Blóð í svarthvítu er súkkulaðisýróp

Kvikmyndir

Konur sem eiga skilið að tekið sé eftir þeim

Kvikmyndir

Bíóást: Vakti strax sterk viðbrögð hjá mér

Kvikmyndir

Bíóást: „Takið eftir myndmálinu“