Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bíó Paradís segir upp öllu starfsfólki og framtíð óljós

30.01.2020 - 08:29
Bíó Paradís við Hverfisgötu.
 Mynd: RÚV
Framtíð Bíó Paradísar er í óvissu og öllu starfsfólki hefur verið sagt upp. Samkvæmt heimildum fréttastofu snýst óvissan að einhverju leyti um framtíð húsnæðisins. 

Starfsfólkið hefur þriggja mánaða uppsagnarfrest og starfsemin verður því með óbreyttu sniði til vors. Ekki er ljóst hvað svo tekur við. Boðað hefur verið til stjórnarfundar hjá Heimili kvikmyndanna, sem rekur Bíó Paradís, nú klukkan níu. Þar á að ræða framtíð bíósins.

Bíó Paradís við Hverfisgötu var opnað haustið 2010 og tók þá við af Regnboganum. Bíóið hefur skapað sér sérstöðu með því að sýna kvikmyndir frá öllum heimshornum, auk hvers kyns eldri mynda. Þá hýsir bíóið kvikmyndahátíðir og stendur fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum, enda er bíóinu lýst sem samstarfsvettvangi flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu. 

„Reglulegar sýningar á perlum kvikmyndanna fyrir börn og unglinga fara fram í húsinu, þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein. Bíó Paradís er því nokkurs konar hjarta kvikmyndamenningar í landinu; áfangastaður allra þeirra sem vilja eiga góðar stundir í afslöppuðu umhverfi sem angar af andrúmslofti kvikmyndanna,“ segir á heimasíðu bíósins.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir