Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bingóbann á helgidögum heyrir sögunni til

12.06.2019 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Frumvarp um breytingar á lögum um helgidagafrið voru samþykkt á Alþingi í gær. Þar með voru felld úr gildi bönn við skemmtunum á borð við bingó, happdrætti, dansleikjum og einkasamkvæmum á opinberum veitingastöðum sem opnir eru almenningi á helgidögum. Þingmenn Miðflokksins greiddu allir atkvæði gegn frumvarpinu.

Sigríður Á. Andersen þingkona Sjálfstæðisflokks og þáverandi dómsmálaráðherra lagði frumvarpið fram í febrúar og var það samþykkt í gær með 44 atkvæðum.

Hér má sjá samantekt á málinu á vef Alþingis.

Ekki lengur bingóbann

Þar með voru felldar úr gildi 4., 5., 6. og 8. greinar laga um helgidagafrið frá 1997.

Helgidagar þjóðkirkjunnar eru sunnudagar, nýársdagur, skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, annar dagur páska, uppstigningardagur, hvítasunnudagur, annar dagur hvítasunnu, aðfangadagur jóla frá kl. 18, jóladagur og annar dagur jóla. 

Bann við skemmtanahaldi, bingói og happdrættum var að finna í fjórðu grein laganna frá 1997.

Í fimmtu grein þeirra var tiltekið meðal annars bann við „gististarfsemi og tengd þjónusta, starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleigna, svo og starfsemi matvöruverslana með verslunarrými undir 600 fermetrum þar sem a.m.k. 2/3 hluti veltunnar er sala á matvælum, drykkjarvöru og tóbaki.“

List-, leik- og kvikmyndasýningar eða sams konar sýningar, ásamt tónleikum, voru undanþegin banninu en máttu einungis hefjast eftir eftir klukkan 15.

Í sjöttu grein sagði að lögreglustjóri gæti heimilað, þegar sérstakar ástæður væru til, að halda samkomur eða sýningar á þeim tíma sem helgidagafriður ætti að ríkja.

Síðustu hindrunum hrundið úr vegi

„Lagafrumvarp mitt um breytingar á lögum um helgidagafrið var samþykkt á Alþingi síðdegis í dag. Þar með hefur verið hrundið úr vegi síðustu hindrunum við að veita og njóta þjónustu á tilgreindum helgidögum þjóðkirkjunnar,“ sagði Sigríður um hið nýsamþykkta frumvarp á Facebook-síðu sinni í gær.