Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bílum fjölgar og mengun eykst

19.11.2019 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi bíla á skrá hér á landi hefur nær tvöfaldast frá aldarmótum og heildarlosun frá bílaumferð hefur aldrei verið meiri. Umhverfisstofnun hvetur landsmenn til að draga úr notkun einkabílsins til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Fjöldi bíla tæplega tvöfaldast frá aldarmótum

Um aldarmót voru rúmlega 180 þúsund bílar á skrá hér á landi. Frá þeim tíma hefur bílum fjölgað jafnt og þétt og við lok árs 2018 voru þeir rúmlega 310 þúsund. Séu þær tölur bornar saman við mannfjölda á Íslandi voru 0,9 bílar fyrir hvern einasta Íslending árið 2018. Þessum ört stækkandi bílaflota fylgir útblástur en heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá bílaumferð hefur aukist mikið hér á landi undanfarin ár. 

 

Í manntali Hagstofunnar, frá 1. janúar 2018, teljast Íslendingar vera 348.450. Fjöldi þeirra sem geta haft bílpróf, þeir sem eru 17 ára og eldri, var 272.559 manns.

 

Heildarlosun dregst saman

Umhverfisstofnun heldur utan um losunarbókhald Íslands og byggjast skuldbindingar landsins í loftslagsmálum á þeim gögnum. Tölur sýni að á meðan heildarlosun Íslands dregst saman hefur mengun frá vegasamgöngum aukist. Árið 2000 var losunin rúmlega 600 þúsund tonn. Sautján árum síðar var hún tæplega 975 þúsund tonn. Tölur yfir losun árið 2018 liggja ekki fyrir.

Hvetja landsmenn til að draga úr notkun einkabílsins

Í tilkynningu sem Umhverfisstofnun sendi frá sér í gær kom fram að svigrúm almennings til að minnka losun er einna mest í samgöngum, þá hvatti stofnunin landsmenn til að draga úr notkun einkabílsins.