Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Billjóna björgunarpakki Bandaríkjastjórnar felldur

23.03.2020 - 03:07
epa08312292 Senate Majority Leader Mitch McConnell walks from the Senate floor to his office on Capitol Hill, in Washington, DC, USA, 21 March 2020. The Senate continues work on the third piece of legislation to provide economic relief in response to the coronavirus pandemic, with a final vote expected next week.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni og forseti hennar, hafði ekki erindi sem erfiði þegar hann lagði frumvarp sitt og stjórnarinnar um allt að 2 billjóna efnahagsaðgerðir fyrir þingið á sunnudag. Mynd: EPA-EFE - EPA
Demókratar í öldungadeild Bandaríkjaþings kolfelldu í kvöld tillögur Repúblikana um biljjóna Bandaríkjadala efnahagsaðgerðir til bjargar bandarísku atvinnu- og efnahagslífi. Þingmenn Demókrata sögðu áætlanir Repúblikana ekki til þess fallnar að hjálpa þeim tugum milljóna venjulegra Bandaríkjamanna sem nú berjast í bökkum vegna afleiðinga COVID-19 faraldursins.

Frumvarp Repúblikana kvað á um útgjöld og niðurfellingar skatta og gjalda sem samtals hefðu kostað ríkissjóð allt að tveimur billjónum Bandaríkjadala, jafnvirði 280 billjóna íslenskra króna á núgildandi gengi, fyrir heimili, fyrirtæki og sjúkrahús landsins.

Til að hljóta samþykki hefði það þurft að fá atkvæði 60 af 100 fulltrúum öldungadeildarinnar. Niðurstaðan varð sú að 47 sögðu já og 47 sögðu nei, þrátt fyrir miklar og ákafar samningaviðræður fulltrúa Demókrata annars vegar og Repúblikana og ríkisstjórnarinnar hins vegar.

Hefur áhrif á olíu- og verðbréfamarkað

Repúblikanar eru með 53 þingmenn í öldungadeild, Demókratar 45 og tveir eru óháðir. Talið er víst að niðurstaðan muni hafa mikil og neikvæð áhrif á verðbréfamarkaði vestra og annars staðar þegar þeir opna í dag. Þess sér þegar merki í Asíu, þar sem verð á hráolíu lækkaði um 5 prósent við opnun markaða og verðbréfavísitalan í Hong Kong lækkaði líka um fimm prósent strax og viðskipti hófust.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV