Billie og Lil Nas berjast um Billboard-listann

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Billie og Lil Nas berjast um Billboard-listann

20.08.2019 - 13:53
Eftir nítján vikur á topp 100 lista Billboard hefur rapparinn Lil Nas X og kántríhipphopp-lag hans, „Old Town Road,“ þurft að lúta í lægra haldi fyrir lagi söngkonunnar Billie Eilish, „Bad Guy.“

Old Town Road bætti nýlega met Despacito þegar lagið kláraði sína sautjándu viku í röð á toppi Billboard-listans. Lagið bætti svo um betur og sat tvær vikur í viðbót á toppi listans sem þýðir að metið er nú heilar nítján vikur. Það var Billie Eilish sem batt enda á drottnun Lil Nas X en lagið hennar, „Bad Guy,“ hefur nú tekið sér stöðu í efsta sæti listans.

„Bad Guy“ er fyrsta lagið sem Eilish kemur á toppinn á Billboard-vinsældalistanum en fyrir þessa viku hafði „Bad Guy“ setið í níu vikur í öðru sæti listans. Plata hennar, WHEN WE ALL FALL ASLEEP WHERE DO WE GO?, sem kom út fyrr á árinu vakti verðskuldaða athygli og það lítur út fyrir að fólk sé alls ekki komið með leiða á söngkonunni. 

Fallið úr fyrsta sæti virðist ekki valda Lil Nas X neinum sérstökum vonbrigðum en hann óskaði Eilish til hamingju með árangurinn á Twitter og sagði hana eiga þetta skilið. 

Lag turtildúfnanna Shawn Mendes og Camillu Cabello, „Senorita,“ fór sömuleiðis upp fyrir „Old Town Road“ í vikunni og situr nú í öðru sæti listans. Lil Nas X verður því að láta sér lynda þriðja sætið í bili. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Samkynhneigður rappkúreki slær met Despacito

Tónlist

Billie Eilish eftirsótt af stórstjörnum

Tónlist

Gotneskar martraðir Billie Eilish