Billie Eilish eftirsótt af stórstjörnum

Mynd með færslu
 Mynd: Album artwork - billieeilish.com

Billie Eilish eftirsótt af stórstjörnum

25.07.2019 - 13:15
Síðastliðið ár hefur verið heldur stórt hjá poppstirninu Billie Eilish og er hún hratt og örugglega að verða stærsta poppstjarna heims. Hún gaf út sína fyrstu plötu When We All Fall Asleep Where Do We Go? fyrr í ár og opnaði þá fyrir nýjan heim í poppmúsík, nútímagerði það sem áður var til. Nú er spurning hvort ný plata sé á leiðinni.

Billie sneri heiminum vægast sagt á hvolf og hefur heillað aðdáendur upp úr skónum hvar sem hún stígur niður fæti. Í lok júní kom hún meðal annars fram á Glastonbury-hátíðinni og gerði tónleikagesti hreinlega agndofa. Hún er enn á tónleikaferðalagi með nýju plötuna, búin að koma fram um allan heim og stefnir til Evrópu í ágúst og september. 

Tónlistartímaritið NME hefur greint frá því að nú hafa verið teikn á lofti í tengslum við nýja plötu, en allt bendir til þess að sú fyrsta verði söluhæsta plata ársins 2019 og ýmsir tónlistarmenn- og konur hafa sagst vilja vinna með táningsstjörnunni.

Í mars síðastliðnum deildi spænska söngkonan Rosalia mynd af þeim á Twitter undir yfirskriftinni „Ég var ekki jafn einmana í hljóðverinu með henni,” og lýsti söngkonunni á þann veg að hún hefði mikinn drifkraft og vissi nákvæmlega hvað hún vildi og hver hún væri. „Ég hef verið í hljóðverinu með fullt af fólki en enginn hefur vakið aðdáun mína eins og hún … hún er með stórkostlega útgeislun og ástríðu þegar hún syngur.”

Þá hefur rapparinn Tyler The Creator einnig haft orð á því að vinna með stirninu. Hann kveðst vilja gera hvað sem er með henni „jafnvel þó það verði algert rusl, þá langar mig að sjá hvað við gætum gert saman.” Þar að auki hafa Elton John, Dave Grohl og Thom Yorke talað vel um hana og sagst vera miklir aðdáendur. 

Billie hefur hins vegar skotið niður sögusagnirnar um að ný plata sé á leiðinni.  Við ætlum þó að leyfa okkur að efast um það, hún verandi að vinna með fólki eins og Rosaliu og Justin Bieber en Billie og Bieber hafa einmitt þegar gefið saman út endurgerð af einu vinsælasta lagi Billie, „Bad Guy.“

Lagið hefur veitt mörgum manninum innblástur en netverji einn tók upp á því að endurgera lagið í stíl hljómsveitarinnar Blink 182. Ekki verður annað sagt en að honum hafi tekist vel til. 

En það er ekki nóg með að Billie sé að sigra tónlistarheiminn heldur virðist hún einnig ætla leggja tískuheiminn undir sig. Hún er þekkt fyrir athyglisverðan stíl, neongrænt hárið og hólkvíð samsett föt, stuttbuxur og feiknamikið glingur á höndum og hálsi. Hún vinnur nú að sinni eigin fatalínu í samstarfi við tískuhúsið Freak City, undir nafninu blonsh. Þetta eru svalir gallar, þaktir eins konar veggjakrotsmynstri sem hún hefur skartað á tónleikum sínum um heiminn.

Mynd með færslu
 Mynd: Freak City - Twitter
Fatastíll Billie hefur vakið athygli víða.

Þetta er það sem við vitum núna og hvort sem ný plata er á leiðinni eða ekki þá hvetjum við ykkur til að kanna stöðuna á henni á meginlandinu á næstu mánuðum. Hún flakkar út um allt og treður meðal annars upp á Spáni, í Þýskalandi, Portúgal og víðar. Kannið málið því sjón er víst sögu ríkari.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Útskriftarsýning LHÍ, Kvika og Billie Eilish

Tónlist

Gotneskar martraðir Billie Eilish