Bílar eru farnir að fjúka á Suðurnesjum

14.02.2020 - 09:17
Innlent · Óveður · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Óveðrið sem nú gengur yfir landið er farið að láta finna fyrir sér á Suðurnesjum og nú um klukkan níu voru útköll orðin á þriðja tug.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að bílar séu farnir að fjúka á Ásbrú. Mest hafi verið um foktjón og meðal annars hefur fokið þak og veggur af húsi í Vogunum að sögn Ólafs. Gluggar hafa einnig brotnað og Ægisgata í Reykjanesbæ er lokuð vegna þess að þar gengur sjór á land og grjót fylgir með því.

„Það leggja sig allir fram um að gera sitt besta og reyna að sinna þessu. Sem betur fer snjóaði ekki mikið hér. Að vísu var þannig á sunnanverðu Ryekjanesinu að það snjóaði og það var blindbylur á Grindavíkurvegi. Við treystum mjög mikið á björgunarsveitir, sem hafa staðið sig afar vel í morgun eins og aðrir viðbragðsaðilar,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson.