Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bílamiðstöð RSL líklega lögð niður

07.06.2019 - 18:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúv
Það er sameiginleg sýn allra lögreglustjóra landsins og ríkislögreglustjóra að leggja niður bílamiðstöð ríkislögreglustjóra, segir formaður lögreglustjórafélagsins, sem vill ekki tjá sig um hvort samstarfið við ríkislögreglustjóra gangi illa.

Lögreglustjórar funduðu með ríkislögreglustjóra í dag þar sem farið var yfir vanda í rekstri bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Hann ber ábyrgð á rekstri, viðhaldi og endurnýjun allra ökutækja lögreglu, og lögregluembættin leigja bílana af ríkislögreglustjóra.

Talsverð óánægja hefur verið innan lögreglu með rekstur bílamiðstöðvarinnar en formaður Lögreglustjórafélags Íslands segir fundina í dag hafa gengið vel. „Sá bráðavandi sem uppi er hefur verið leystur með þeim hætti að lögregluembætti landsins hafa nú heimild til þess að taka á leigu bílaleigubíla og merkja og búa sem ökutæki lögreglu," segir Úlfar.

Sameiginleg sýn að leggja bílamiðstöðina niður

Því næst funduðu lögreglustjórarnir í dómsmálaráðuneytinu. „Niðurstaða þess fundar eru að það þurfi að vera einhverjar breytingar og ég sé fyrir að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði lögð niður í þeirri mynd sem við þekkjum og ég held ég geti fullyrt að það sé sameiginleg sýn lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra," segir Úlfar.

Enn sé óljóst hvort lögregluembættin muni sjálf sjá um að reka lögreglubíla eða hvernig framhaldið verði, en það er nú til umræðu í ráðuneytinu.

Vill ekki tjá sig um samstarfið við ríkislögreglustjóra

Fleiri mál tengd ríkislögreglustjóra hafa verið í umræðunni, en sérsveitarmenn kvörtuðu til dómsmálaráðherra yfir framkomu og stjórnarháttum Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, fyrr í vikunni. 

Spurður hvort samvinna milli ríkislögreglustjóra og lögregluembættanna gangi erfiðlega segist Úlfar ekki vilja tjá sig um málið.  „Ég treysti mér ekki til að fara út í þá umræðu hér," segir hann.