Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bierlein kanslari Austurríkis, fyrst kvenna

31.05.2019 - 00:36
epa07612505 Brigitte Bierlein, president of the Austrian constitutional court, speaks to the media during a press conference with Austrian President Alexander van der Bellen at the Hofburg Palace in Vienna, Austria, 30 May 2019. Van der Bellen nominates Bierlein as interim Chancellor until the general elections in September. Bierlein succeeds Sebastian Kurz who was ousted as Chancellor by a no-confidence vote in parliament on 27 May in the wake of a scandal involving the Austrian Freedom Party (FPOe), the coalition partner of Kurz's Austrian People's Party (OeVP).  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Brigitte Bierlein var á fimmtudag skipuð í embætti kanslara Austurríkis, fyrst kvenna. Hún hefur gegnt embætti forseta stjórnlagadómstóls Austurríkis síðan í febrúar 2018, en hún er einnig fyrsta konan til að gegna því embætti. Þá hafði hún verið varaforseti dómstólsins um sextán ára skeið.

Tæpar tvær vikur eru liðnar síðan hið svokallaða Ibiza-hneyksli skók austurríska stjórnmálaheiminn, leiddi til stjórnarslita og að lokum til þess að meirihluti þingsins vék kanslaranum Sebastian Kurz og því sem eftir var af ríkisstjórn hans frá völdum með vantraustsyfirlýsingu á mánudaginn var.

Nýtur virðingar þvert á flokka

Alexander van der Bellen, forseti Austurríkis, skipaði Bierlein í embætti kanslara í Vínarborg í gær, fimmtudag. Bierlein hefur ekki tekið þátt í austurrískum stjórnmálum, heldur átt langan og farsælan feril sem lögmaður, saksóknari og dómari. Hún er óflokksbundin og þótt áhrifamaður í flokki Jafnaðarmanna hafi kallað hana erkiíhald vísar hún því alfarið á bug.

Bierlein nýtur enda mikils álits sem dómari, þvert á flokka, og þykir fagmannleg, raunsæ og óhlutdræg fram í fingurgóma. Hennar hlutverk verður að leiða starfsstjórn og sjá til þess að allt gangi snurðulaust í austurríska stjórnkerfinu fram að kosingunum sem haldnar verða í haust, líkast til snemma í september.