Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bieber veldur ferðaþjónustunni áhyggjum

05.11.2015 - 10:27
Mynd: Justin Bieber / YouTube
Ævintýraleiðangur kanadíska tónlistarmannsins Justins Bieber veldur ferðaþjónustuaðilum í Skaftárhreppi áhyggjum. Í nýjasta tónlistarmyndbandi sínu sprangar Bieber inn á stíga og svæði sem hafa verið girt af til að vernda viðkvæman gróður.

Myndandið, sem er við lagið I'll Show You, birtist á Youtube á mánudag og nú þegar hefur það verið skoðað um 12 milljón sinnum. Í myndbandinu sést Bieber meðal annars í Fjaðrárgljúfri í Skaftárhreppi. Til þess að komast þangað þurfti hann að fara yfir kaðla og nú óttast menn að fjöldi aðdáenda hans fylgi í kjölfarið.

„Okkur finnst þetta að sjálfsögðu frábær landkynning og mjög góð kynning fyrir okkar svæði, sem við erum mjög stolt af, og að hann hafi komið hingað og valið þessi svæði. En erum á sama tíma frekar hrædd um að þetta muni valda meiri átroðningi á svæði sem við erum búin að loka,“ segir Þorbjörg Jónsdóttir, verkefnisstjóri Visit Klaustur.

Bieber veltir sér um á mosabreiðu í Eldhrauni í myndbandinu, Þorbjörgu til lítillar gleði. „Mosinn er alveg einstaklega viðkvæmur þarna í Eldhrauninu og skemmist mjög hratt. Þó það sé bara örlítill átroðningur, þá tætist hann upp og treðst niður og jafnar sig í rauninni ekki.“

Þorbjörg er þó hæstánægð með að söngvarinn geðþekki hafi fengið sér sundsprett í gljúfrinu. „Það finnst mér hið besta mál. Ég vona að sem flestir komi og syndi aðeins í ánni. Það er fátt betra á blíðviðrisdegi en að synda í Fjaðrá.“

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV