Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bieber-aðdáendur stöðvaðir við Fjaðrárgljúfur

13.03.2019 - 08:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Landvörður þarf að stöðva fjölda ferðamanna á hverjum degi sem hyggjast ganga um Fjaðrárgljúfur í Skaftárhreppi. Umhverfisstofnun hefur ákveðið að framlengja lokun á gljúfrinu fram til 1. júní. Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá stofnuninni, segir að landvörður þurfi að stöðva hundrað til tvö hundruð bíla á dag. Daníel rekur miklar og auknar vindældir gljúfursins til myndbands sem Justin Bieber tók upp við Gljúfrið. 300.000 manns skoða gljúfrið á ári.

„Ástandið núna er þannig að það er mikil bleyta í jarðveginum eftir veturinn. Svo hafa verið leysingar og frost af og til.  Þegar það blotnar upp nær vatnið ekki að drenast í burtu og þetta hleypur allt í drullu. Fólk æðir þarna um og reynir að forðast drulluna, gengur út fyrir stíga, og það veldur þessum skemmdum sem við höfum verið að benda á,“ segir Daníel.

Eru þetta miklar skemmdir?

„Þetta er meðfram stígnum og út á klettasnasir sem ganga út í gljúfrið. Þetta eru aðallega gróðurskemmdir,“ segir Daníel. Hann er bjartsýnn á að skemmdirnar gangi til baka. 

Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur óskað eftir aukinni landvörslu. Hefur Umhverfisstofnun tekið afstöðu til þess?

„Já, það er núna búið að tryggja heilsárslandvörslu út allt þetta ár,“ segir Daníel.

Kanadíski tónlistarmaðurinn Justin Bieber tók upp myndband við lagið I'll show you í Fjaðrárgljúfri og var það birt á Youtube 2. nóvember 2015. Strax þá grunaði starfsfólk í ferðaþjónustu að þetta gæti valdið auknum ágangi ferðamanna. Ljóst er að þessar áhyggjum voru á rökum reistar. Daníel tekur undir að auknar vinsældir Fjaðrárgljúfurs megi líklega rekja til Biebers.

„Þetta gljúfur var nokkuð lítið þekkt. En ég held að Íslendingar hafi vitað af þessu nokkuð mikið lengur. Þetta var t.d. á frímerki á sjöunda áratugnum. Þessi mikla aukning hefur verið undanfarin hefur verið eftir að Bieberinn kom. Það var alveg 50-80% aukning milli ára 2016, 2017 og 2018,“ segir Daníel.

Vitið þið hversu margir koma að gljúfrinu á ári?

„Ekki algjörlega. En í kringum 300.000 áætlum við,“ segir Daníel.

Virða ferðamenn alveg svona lokanir?

„Það eru alveg dæmi um að fólk sé ekki að gera það. Við erum með lokun við Hunkubakka sem er við Lakaveg. Landvörður er á vaktinni frá 9 til 17 alla daga. Yfirleitt þegar hún mætir á svæðið þarf hún að byrja á röltinu að sækja fólk. Svo þarf hún að stoppa milli 100 og 200 bíla á dag. Flestir virða þetta en svo er fólk sem áttar sig ekki á því að það er lokað fyrir alla umferð og halda að þau geti gengið,“ segir Daníel.