Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Biður Trump að hætta að ögra sér

09.10.2019 - 11:35
epa05527695 Democratic presidential candidate Hillary Clinton speaks during an election campaign rally at the University of South Florida in Tampa, Florida, USA, 06 September 2016.  EPA/CRISTOBAL HERRERA
 Mynd: EPA
Hillary Clinton hvetur Donald Trump, Bandaríkjaforseta, til að hætta að reyna að ögra sér til að bjóða sig fram til forseta á næsta ári. Í svari Clinton við færslu Trump á Twitter segir hún forsetanum jafnframt að sinna starfi sínu.

 

Trump sagði i færslunni að „hin óheiðarlega“ eins og hann kallar Clinton, eigi að bjóða sig fram gegn Elizabeth Warren. Hún sækist eftir því að vera forsetaefni Demókrata. Trump segir einnig í færslunni að fyrst þurfi Clinton að útskýra notkun á tölvupósti. Hún lá undir ámæli fyrir að hafa notað einkapósthólf sitt til að skrifa embættiserindi í tíð sinni sem utanríkisráðherra. 

Joe Biden var talinn líklegastur til verða frambjóðandi Demókrata gegn Trump á næsta ári en samkvæmt skoðanakönnunun hefur fylgi við Warren aukist að undanförnu.

Clinton er fyrrum utanríkisráðherra og forsetaframbjóðandi og hefur að undanförnu gagnrýnt Trump harðlega eftir að fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti að rannsaka embættisfærslur hans varðandi símtal við Volodimir Zelensky, forseta Úkraínu í sumar. Í símtalinu bað Trump Zelensky að beita sér fyrir því að aftur yrði tekin upp rannsókn á úkraínsku gasfyrirtæki. Hunter Biden, sonur Joe Biden, sat í stjórn fyrirtækisins.